Viðtal

Lang erfiðasti völlurinn hingað til
Fimmtudagur 23. febrúar 2023 kl. 16:27

Lang erfiðasti völlurinn hingað til

„Það er búinn að vera stígandi í þessu og ég var bara solid í dag, eiginlega bara drullugóður,“ sagði Guðmundur Ágúst Kristjánsson eftir fyrsta hringinn á Hero Indian Open á DP mótaröðinni, en Guðmundur er í 4.-6. sæti eftir fyrsta hring. Ekki náður allir leikmenn að ljúka leik á fyrsta hring vegna myrkurs. Guðmundur Ágúst lauk leik kl. 18:20 að staðartíma og þá var bara að detta í myrkur. 

„Þetta er lang erfiðasti völlurinn sem ég er búinn að spila á þessu tímabili. Þú sérð að parið er að gefa í kringum 20.sæti. Grínin eru leifturhröð og þú þarft að vera á réttum stöðum eftir teighögg, og svo aftur á réttum stöðum þegar þú ert inni á flöt. Ég lenti í því einu sinni í dag að pútta 12 metrana, 6 metra framyfir. Það vara bara ekki séns að stoppa boltann. Það er mjög stutt í ruglið hérna. Helling af þrípúttum og menn að spila sig í double bogey í kringum flatirnar,“ sagði Guðmundur Ágúst um leik dagsins og hlakkar til morgundagsins. Guðmundur hóf leik í smá vindi og náði einum fugli með 200 metra höggi upp í vindinnl, uppað stöng. En það lægði eftir sem á leið. 

„Ég er bara á hótelinu og golfvellinum. Það er 15 mínútna akstur á milli og það er nægt ævintýri fyrir mig bara að fara þessa bílferð. Hef aldrei séð svona traffík eins og er hérna. Bara eins og það séu stórtónleikar. Bílstjórinn keyrir bara inn í traffíkina og svo er flautað. En við komumst á áfangastað. Þetta er upplifun að sjá,“ sagði Guðmundur Ágúst að lokum, spenntur fyrir morgundeginum. Við fylgjumst að sjálfsögðu áfram með okkar manni á DP mótaröðinni hér á kylfingur.is. Hann á teig kl. 8:20 að staðartíma í fyrramálið, eða 2:50 í nótt að íslenskum tíma.

Yannik Paul frá Þýskalandi er efstur á 7 höggum undir pari.