Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Viðtal

Þetta var góð auglýsing fyrir golfið - segir Hlynur Geir
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 15. ágúst 2023 kl. 15:37

Þetta var góð auglýsing fyrir golfið - segir Hlynur Geir

„Þetta var góð auglýsing fyrir golfið. Það var erfitt að tapa en svona er þetta. Logi spilaði stórkostlega en ég hefði viljað vera aðeins betri á lokadeginum,“ sagði Hlynur Geir Hjartarson, Golfklúbbi Selfoss en hann var með fjögurra högga forskot fyrir lokadaginn á Íslandsmótinu á Urriðavelli en varð að sætta sig við annað sætið í mótslok. 

Selfyssingurinn gekk ekki alveg heill til skógar síðustu tvo dagana og Gunnhidlur, eiginkonan, sem var með honum á pokanum lumaði á verkjatöflum sem hann fékk. „Ég var að kljást við meiðsl sem byrjuðu á þriðja degi, fékk sting í öxl og bak og það var sama upp á teningnum á lokadeginum. Ég reyndi að gera mitt besta og en ég ætla ekki að nota þetta sem afsökun. Logi átti sigurinn fyllilega skilið.

Mín frammistaða kom ekkki á óvart. Ég elska þennan völl, hef unnið stigamót á honum og var í baráttunni á Íslandsmótinu 2006 og mér hefur alltaf gengið vel á honum.“

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

En þú tapaðir þremur höggum á fyrri níu holunum í lokahringnum eftir slæm upphafshögg. Hvað gerðist?

„Ég barðist fyrir öllum höggum. Ég stífnaði aðeins upp eftir langa pásu á 3. teig og húkkaði boltann í fyrsta sinn í mótinu, aftur á 5. teig og svo kom aftur slæmt högg með þrjú tré á sjöndu, einnig til vinstri. Þessi mistök kostuðu högg í hvert sinn.

Þegar maður er farinn að gera þetta verður maður hræddur og í teighögginu á tíundu var ég að passa að draga ekki boltann og þá ýtti ég honum út. Ég var að reyna að núllstilla mig og hugsa bara um eitt högg og jafnaði mig á seinni níu holunum og ég náði alla vega að gera þetta að móti þarna í lokin og spilaði hringinn á parinu.“

Já, þú gerðir þetta spennandi með fugl á 15. og 16. holu og varst tveimur höggum á eftir Loga á 18. teig.

„Ég geri ráð fyrir að Logi hafi fengið smá sting í magann eftir tvö fugla og frábært upphafshögg hjá mér á átjándu en hann náði góðum skolla og ég gott par. Ég var svo peppaður þarna í lokin að mér fannst ég vera að fara að setja glompuhöggið ofan í. Ég veit ekki alveg hvar þettga egó kemur,“ segir hann og hlær og bætir við:

„Ég er búinn að leggja inn í þennan reynslubanka í tuttugu ár og ég tók út úr honum í þessu móti. Það er stórkostlegt að sjá alla þessa ungu, flottu og góðu kylfinga. Afreksstarfið í klúbbunum er mjög gott. Við erum að framleiða mög góða kylfinga. Það var auðvitað gaman að Selfoss ætti tvo kylfinga í lokahollinu á síðasta degi á Íslandslmóti. Við erum með góða æfingaaðstöðu og starfið hefur verið að skila sér. Ég vil líka nota tækifærið og hrósa Oddi líka fyrir stórkostlegan golfvöll. Þetta er „target“ völlur og það þarf að hugsa hvert einasta högg sem er bara frábært,“ sagði Hlynur að lokum.