Viðtal

„Golfkennsla fyrir byrjendur í allt sumar án endurgjalds“
18. flöt Hamarsvallar í Borgarnesi. Ljósmynd: GB
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
miðvikudaginn 27. apríl 2022 kl. 18:33

„Golfkennsla fyrir byrjendur í allt sumar án endurgjalds“

Lág byrjendaárgjöld fyrstu tvö árin. „Við viljum leggja okkar að mörkum í útbreiðslu golfs á Íslandi.“ Jóhannes Ármannsson, framkvæmdstjóri Golfklúbbs Borgarness, í léttu spjalli.

„Það er alltaf nóg að gera á Hamarsvelli. Við fáum fjöldann allan af golfferðamönnum til okkar á Hótel Hamar, bæði Íslendinga og erlenda ferðamenn. Á hótelinu er fyrsta flokks þjónusta og upplifunin svipar til þess að dvelja erlendis við golfiðkun“, segir Jóhannes Ármannsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Borgarness.

Hið glæsilega klúbbhús Golfklúbbs Borgarness að Hótel Hamri. Ljósmynd: GB

Jóhannes, sem einnig er vallarstjóri á Hamarsvelli, á von á að opna völlinn fyrir miðjan maí, en hann segir völlinn að venju koma vel undan vetri.

„Það er ágætt að leyfa vellinum að njóta vafans. Það er allt mjög viðkvæmt á þessum árstíma svo við flýtum okkur hægt.“

Klúbburinn fékk inni í húsnæði Menntaskóla Borgarfjarðar snemma á árinu og hefur komið sér upp aðstöðu þar til æfinga yfir vetrartímann.

„Við neyddumst til að loka þeirri inniaðstöðu sem við höfðum árið 2020 vegna eldvarnasjónarmiða en við erum sem betur fer búin að koma okkur vel fyrir í húsnæði Menntaskólans. Þar er bæði hermaaðstaða og aðstaða til að vippa og pútta. Við rekum gott barna- og unglingastarf sem og starf fyrir eldri borgara. Þá er kvennastarfið öflugt“, segir Jóhannes.

Golfklúbbur Borgarness býður alla kennslu, hvort sem um ræðir í barna- og unglingastarfi, kvennastarfi eða starfi fyrir eldri borgara án endurgjalds.

„Við viljum haga starfi okkar eftir Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og endurspeglast það m.a. í því að öll kennsla fyrir þessa hópa er án endurgjalds. Að auki bjóðum við öllum þeim sem hafa aldrei reynt fyrir sér á golfvellinum að þiggja golfkennslu fyrir byrjendur einu sinni til tvisvar í viku í allt sumar án endurgjalds. Þá er árgjald fyrir byrjendur hjá GB aðeins 25.000 krónur fyrstu tvö árin. Með þessu viljum við leggja okkar að mörkum í útbreiðslu golfs á Íslandi.“

Að venju verða fjölmörg mót haldin á Hamarsvelli í sumar. Íslandsmót golfklúbba í flokki eldri kylfinga fer fram á Hamarsvelli um miðjan ágúst og þar verður eflaust hart barist.

„Hið glæsilega Hjóna & Paramót Herragarðsins, Boss, Mathilda, GolfSaga, Adidas.is og Hótels Hamars, verður haldið dagana 24.-26. júní nk. og svo höldum við að venju hið rótgróna Vinkonumót COLORWOW – Hár ehf., Mathilda og GolfSaga sem og Herramót Hugo Boss og Herragarðsins í júlímánuði. Opnu mótin okkar hafa notið mikilla vinsælda svo það er um að gera að hugsa hratt og skrá sig til leiks sem fyrst.

Útisvæðið við Hótel Hamar. Ljósmynd: GB

Hamarsvöllur er snyrtilegur og almennt vel hirtur. Völlurinn hefur þá sérstöðu að klúbbhúsið er að Hótel Hamri og Borgarnes er því tilvalinn kostur ef fólk vill leika golf á flottum velli, borða góðan mat á glæsilegum veitingastað og gista í fallegu umhverfi við Borgarfjörð.

Jóhannes segir að sumarið leggist vel í forsvarsmenn klúbbsins og hvetur kylfinga til að sækja Hamarsvöll heim í sumar.

„Við tökum vel á móti öllum, verið velkomin.“

Hótel Hamar. Ljósmynd: GB

Hamarsvöllur í Borgarnesi. Ljósmynd: GB