Viðtal

„Það verður erfitt að horfa á US Open í næstu viku“
Haraldur Franklín Magnús. Ljósmynd: golfsupport.nl/Heinrich Helmbold
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
miðvikudaginn 8. júní 2022 kl. 00:20

„Það verður erfitt að horfa á US Open í næstu viku“

Haraldur Franklín Magnús gerir upp úrtökumótið fyrir Opna bandaríska meistaramótið

„Ég brunaði beint á flugvöllinn og rétt náði fluginu til Spánar. Spennufallið og pirringurinn var alltof mikill til að hvílast í vélinni en nú er þetta mót að baki og næsta verkefni framundan,“ segir Haraldur Franklín Magnús, sem var grátlega nálægt því að komast inn á Opna bandaríska meistaramótið í gegnum lokastig úrtökumóts í New York. Hann er nú kominn til Katalóníu þar sem hann hefur leik á Empordà Challenge á Áskorendamótaröð Evrópu á morgun.

Haraldur Franklín segist hafa skráð sig í úrtökumótið þar sem hann gat farið beint á lokastigið vegna stöðu sinnar á heimslistanum. Úrtökumótin fyrir Opna bandaríska meistaramótið eru leikin á tveimur stigum en 500 efstu kylfingarnir á heimslistanum komast beint á lokastigið.

„Ég hugsa að það taki fátt meira á taugarnar en að tía boltann upp á 1. teig á US Open þar sem völlurinn er settur upp eins erfiður og kostur er á og allir þeir bestu í heiminum taka þátt. Ég vil spila í akkúrat svoleiðis aðstæðum – á risamótum.“

„Ég hélt að það væru leiknir tveir hringir á einum velli eins og á Opna mótinu en svo kom á daginn að hringirnir voru leiknir á sitt hvorum vellinum. Þetta eru svakalega lokaðir klúbbar og sem dæmi mátti eingöngu æfa í 15 mínútur á æfingasvæðinu, ekki spila æfingahring daginn fyrir mót og að sjálfsögðu var stranglega bannað að fara inn í klúbbhúsið. Ég náði því ekki góðri æfingu fyrir mótið en það fylgir þessu stundum.“

Æfingaflötin á Old Oaks vellinum og glæsilegt klúbbhúsið í baksýn. Ljósmynd: Aðsend

„Vellirnir voru báðir settir upp krefjandi, flatirnar voru hraðar og mikill halli á þeim – það var bannað að skilja eftir pútt niður í móti. Dagurinn fór frekar brösuglega af stað og eftir fimm holur var ég kominn 2 högg yfir par Old Oaks vallarins. Ég vann mig þó til baka á hringnum og endaði á 1 höggi undir pari.“

„Century völlurinn var aðeins þægilegri og þar var auðveldara að setja upp leikskipulag. Mér gekk mjög vel að spila hann og ég var heilt yfir ánægðastur með þolinmæðina og hugarfarið. Þetta var skemmtilegur dagur. Hann var erfiður og stressandi en frábær áskorun. Niðurstaðan var 2 högg undir pari og við tók löng bið.“

Haraldur flakkaði fram og til baka, yfir og undir niðurskurðarlínuna en þegar allir höfðu skilað sér í hús var ljóst að grípa þyrfti til bráðabana milli átta kylfinga um þrjú laus sæti á þriðja risamót ársins.

„Myndaðir voru tveir ráshópar. Ég dró töluna 8 úr hatti og sló síðastur úr seinni ráshópnum.“

„Fyrsta hola bráðabanans var 1. braut á Old Oaks vellinum. Brautin liggur í hundslöpp til hægri og vindurinn blés frá hægri til vinstri. Ég fór aðeins of langt út í hundslöppina og endaði í karganum. Þar lá köngull upp við boltann. Ég var með dómara með mér og var að velta fyrir mér að færa köngulinn. Dómarinn var fljótur að tjá mér að ef boltinn hreyfðist fengi ég tvö högg í víti. Ég var of skjálfhentur í svoleiðis Míkadó-leik svo ég ákvað að reyna að slá lágt og rúlla boltanum inn á flöt. Það gekk nokkuð vel eftir en köngullinn reif í og ég dró ekki inn á flötina. Ég átti svo gott högg inn á flöt og setti þriggja metra pútt í. Boltinn tók reyndar heilhring á holubarminum en hann endaði í. Það fengu allir par á holuna.“

„Næst fórum við á 18. braut vallarins, sem er löng par 5 og upp í móti. Við heyrðum einhver fagnaðarlæti á flötinni í hollinu á undan okkur. Ég átti u.þ.b. fjögurra til fimm metra pútt eftir fyrir fugli og ætlaði að negla það niður – alls ekki of stuttur. Ég missti það rétt hægra megin og endaði 2 metra fram fyrir holu. Þarna voru þrír búnir að fá fugl svo því miður gekk þetta ekki upp að þessu sinni.“

Haraldur er að vonum svekktur.

„Það verður erfitt að horfa á US Open í næstu viku og hugsa um öll þessi „einu högg“ sem hefðu komið mér á The Country Club meðal þeirra allra bestu.“

Hann segir mikilvægast fyrir sig á þessari stundu að hvílast vel og ná upp þolinmæðinni.

„Ég má ekki pirra mig á mótinu á undan. Ég get tekið margt jákvætt með mér frá New York. Það var hellingur af frábærum spilurum með í mótinu og Ross Davis, félagi minn úr bandaríska háskólagolfinu kom frá Boston og var kylfuberi. Það var frábært að hafa gamlan vin á pokanum en við hittumst orðið örsjaldan. Sem betur fer er US Open árlegur viðburður - ég verð bara með seinna,“ segir Haraldur Franklín Magnús að lokum.

Okkar maður á rástíma á fyrsta hring Empordà Challenge rétt upp úr klukkan tólf á hádegi á morgun á íslenskum tíma. Guðmundur Ágúst Kristjánsson er ekki með að þessu sinni.

Staðan á mótinu

Ross Davis, félagi Haralds Franklíns úr háskólagolfinu, var á pokanum á mótínu. Ljósmynd: Aðsend