Viðtal

„Verður ein flottasta par 3 hola á Íslandi“
Sunnudagur 8. janúar 2023 kl. 21:14

„Verður ein flottasta par 3 hola á Íslandi“

Golfklúbbur Reykjavíkur hefur staðið í miklum framkvæmdum á Grafarholtsvelli allt síðastliðið ár og haldið var áfram í vetur af miklum krafti. Félagsmenn í GR fengu síðsumars að leika af glæsilegum nýjum teigum á 1. braut og var góður rómur gerður að framkvæmdinni. Átjánda brautin var öll rifin upp haustið 2021 og farið í miklar jarðvegsframkvæmdir við að slétta brautina, setja í hana vökvunarkerfi og byggja þrjár nýjar glompur. Félagsmenn í GR geta vænst þess að spila nýja 18. braut snemmsumars 2023.

„Við erum að vinna eftir teikningum frá hinum virta golfvallararkitekt Tom McKenzie, en vallarstarfsmenn okkar undir stjórn Ellerts Þórarinssonar, yfirvallarstjóra, sjá um framkvæmdirnar. Það gekk mjög vel með 18. brautina í sumar svo við létum bara slag standa og hófumst handa við nýja og glæsilega 17. braut í haust. Hún er lykillinn að umtalsverðum breytingum sem verða á Grafarholtsvelli. Með því að færa 17. brautina á nýjan stað, verður hægt færa 3. flötina og lengja 4. brautina verulega. Fjórða brautin er alltof stutt par 5 hola fyrir okkar bestu kylfinga í dag. En það mun heldur betur verða breyting á“ segir Ómar Örn Friðrikssson, framkvæmdastjóri GR. 

Og bætir við: „Nýja 17. brautin verður að mínu mati ein af bestu par 3 holum landins. Það er spilað yfir vatn alla leið og hún liggur á svæði sem áður var ónotað. Eiginlega bara órækt. Gangi að óskum í vor þá er von að við leikum nýja 17. braut í Meistaramóti GR 2023, en það þarf allt að ganga upp. Leikið verður á núverandi 17. braut alveg þangað til sú nýja er tilbúin, þannig að framkvæmdin truflar ekkert leik á vellinum.“ 

Spennandi tímar í Grafarholtinu og það verður gaman að fylgjast með framkvæmdum á vellinum á komandi sumri. Nýja 17.brautin verður sannarlega frábær breytinga á Grafarholtsvellinum, vatn í leik alla leið hægra megin. Brautin verður um 130-150 metrar af klúbbteigum.