Fréttir

Búið að opna inn á sumarflatir á holum eitt til tólf í Vestmannaeyjum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 24. apríl 2024 kl. 15:42

Búið að opna inn á sumarflatir á holum eitt til tólf í Vestmannaeyjum

Vilja festa fleiri mót í sessi

„Manni finnst oft súrt á góðviðrisdögum, völlurinn í toppstandi og kannski bara tvö holl á vellinum,“ segir Karl Haraldsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Vestmannaeyja. Eyjamenn opnaðu inn á sumarflatir á holum eitt til tólf á þriðjudag og eru búnir að ljúka framkvæmdum við skálann sem gjörbyltir inniaðstöðunni. Komum erlendra kylfinga hefur fjölgað á undanförnum árum og Eyjamenn vilja sjá fleiri Íslendinga nýta sér dagsferð til Vestmannaeyja. Fjölmörg mót eru á dagskránni en sum þeirra hafa heldur betur fest sig í sessi á meðal kylfinga, kannski ekki síst vegna félagsskaparins í kringum mótin og lokahófin en fáir kunna þá list að búa til partý, betur heldur en Eyjamenn.

Kalli er nýtekinn við sem framkvæmdastjóri GV, hann er fæddur og uppalinn Eyjapeyi og er spenntur fyrir sumrinu.

„Við opnuðum inn á sumarflatirnar á holum eitt til tólf á þriðjudaginn og hinar flatirnar líta vel út. Það er öðruvísi gras í tveimur flötum þar og sjávargrínin eru venjulega aðeins lengur að taka við sér en í svona hita eins og hefur verið gerist þetta fljótt, um leið og við sjáum tveggja stafa hitatölu þá heyrir maður grasið nánast vaxa. Við bárum á í síðustu viku, fengum svo rigningu og þegar hitastigið hækkar og það er raki í loftinu, gerast hlutirnir hratt en við ætlum ekki að flýta okkur of hratt að opna inn á hinar flatirnar, sú fjórtanda á lengst í land en við verðum búnir að opna inn á allar átján flatirnar í byrjun maí, því lofa ég. Eyjamenn eru hæstánægðir að geta leikið fyrstu tólf holurnar í dag á sumarflötum svo við erum í góðum málum.

Við erum stoltir af framkvæmdunum við skálann, við byrjuðum þær fyrir þremur árum og höfum tekið þetta í áföngum eftir því sem fjárhagurinn hefur leyft og nú er allt tilbúið. Þetta breytir inniaðstöðunni okkar mikið og við horfum björtum augum til sumarsins.“

Nokkur mót hafa fest sig í sessi hjá Eyjamönnum og langar Kalla að koma fleiri mótum á koppinn. 

„Fyrsta opna mótið okkar verður 18. maí en við munum henda í nokkur innanfélagsmót fram að því. Við erum alltaf með stórt mót á föstudegi um Sjómannahelgina og svo erum við með tvö stór mót yfir sumarið, Volcano open sem er haldið á goslokunum og hjóna- og parakeppni sem er helgina fyrir verslunarmannahelgina. Þessi tveggja daga mót hafa heldur betur fest sig í sessi og það er held ég jafnvel ekki síst vegna félagsskaparins í kringum mótið, golfið auðvitað efst á baugi en lokahófin eftir þessi mót er fyrir suma jafnvel eftirminnilegri en sjálft mótið, við kunnum jú að búa til gott partý. Við erum að reyna festa mót í sessi sem við köllum GV open og er átján holu mót sem við höldum í lok ágúst. Það tekur alltaf tíma að festa mót í sessi en í þessu móti verða glæsilegir vinningar. Á þessum tíma skartar völlurinn auðvitað sínu fegursta og ég hef fulla trú á að mótið eigi eftir að festa sig í sessi í framtíðinni. Við munum halda tvær sveitakeppnir svo það verður nóg að gera.

Við Eyjamenn héldum Íslandsmót 35+ nokkrum sinnum og sömuleiðis var mjög vel látið af því og heyrðum við frá kylfingum hvað þeim fannst skemmtilegra þegar mótið var haldið þar vegna lokahófsins. Við erum með pælingar um að búa til eitthvað sambærilegt mót en ef minnst er á Íslandsmót þarf GSÍ að vera með aðkomu að mótinu og þá stjórna þeir hvar mótið er haldið. Ég held að gaman yrði að búa til mót sem við gætum nefnt Besti kylfingur landsins eða eitthvað álíka, hafa 35 ára aldurstakmark t.d. og reyna laða þennan hóp kylfinga til Vestmannaeyja, ég er sannfærður um að slegist yrði um að komast í mótið,“ segir Karl.

Mikil og góð tenging hefur ávallt verið á milli Vestmannaeyinga og Grindvíkinga og eftir hremmingarnar sem Grindvíkingar eru að glíma við, var einróma samþykkt í stjórn GV að rétta vinum sínum í Grindavík hjálparhönd.

„Við bjóðum Grindvíkingum að spila í Eyjum endurgjaldslaust í sumar og erum stoltir af því. Grindvíkingar eru að ganga í gegnum það sama og við Eyjamenn þurftum að gera á sínum tíma og var aldrei nokkur spurning í okkar huga að bjóða vinum okkar þetta, sem er í raun það minnsta sem við getum gert. 

Það hefur verið mikil aukning erlendra kylfinga eftir COVID og það er auðvitað ánægjulegt og ég myndi vilja sjá landa mína hugleiða okkur í meira mæli. Það er ekki nema eins og hálftíma akstur úr höfuðborginni og 40 mínútna sigling yfir, lítið mál að vera kominn um hádegi, spila og hægt að fara til baka samdægurs. Ég neita því ekki að maður er stundum pínu svekktur yfir því á góðviðrisdögum, völlurinn í toppstandi og kannski bara tvö holl á vellinum. Kjörið tækifæri þegar fólk er komið í sumarfrí að bregða undir sig betri fætinum og renna til eyja, ég hvet íslenska kylfinga til að hafa okkur í huga.

Komum skemmtiferðaskipa hefur fjölgað á undanförnum árum og viljum við reyna ná til golfaranna þar en þetta fólk vill kannski meira skoða minjar um eldgosið. Sjáum hvað setur, við fórum í talsverða vinnu á samfélagsmiðlum og það hefur skilað árangri, við höfum fengið flottar umfjallanir í erlendum golftímaritum og ég held að fjölmargir erlendir ferðamenn muni spila völlinn okkar í sumar og vonast auðvitað eftir að sjá sem flesta landa mína líka,“ sagði Kalli að lokum.

Karl Haraldsson, framkvæmdastjóri GV.
Karl í golfferð á Spáni.

Stækkun golfskálans gjörbyltir inniaðstöðu Eyjamanna.

Eyjamenn eru ánægðir...

... með breytingarnar og stækkunina á golfskálnum.

Golfvöllurinn í Eyjum kemur vel undan vetri.