Samkaup - nettó
Samkaup - nettó

Fréttir

„Ég setti loksins í á 9. braut og kom mér þá af stað“
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Ljósmynd: Tristan Jones/LET
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
föstudaginn 13. maí 2022 kl. 08:37

„Ég setti loksins í á 9. braut og kom mér þá af stað“

Guðrún Brá var frábær á seinni níu - lék á 3 höggum undir pari. Lék samtals á 1 höggi undir pari á öðrum hring

Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK, lauk leik nú fyrir skömmu á öðrum hring Aramco Team Series í Bangkok en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni. Guðrún lék annan hringinn á 71 höggi eða á 1 höggi undir pari en leikið er á Thai Country Club.

Aramco Team Series mótin eru meðal stærstu móta hvers keppnistímabils á mótaröðinni. Á mótinu í Bangkok verða leiknir þrír hringir á Thai Country Club . Verðlaunafé nemur einni milljón Bandaríkjadala.

Guðrún Brá lék á 38 höggum eða á tveimur höggum yfir pari á fyrri níu holum sínum en hún var ræst út á 10. teig í nótt. Hún lék þá frábærlega á seinni níu holum sínum, á 33 höggum eða á 3 höggum undir pari. Hún fékk einn fugl og þrjá skolla á fyrri níu en lék skollalausar seinni níu ásamt því að fá þrjá fugla. Okkar kona situr í 34.-36. sæti eins og er á samtals 1 höggi yfir pari.

Í stuttu spjalli við Kylfing eftir hringinn sagðist Guðrún Brá hafa barist vel til baka eftir hæga byrjun.

„Ég var að koma mér i mjög góð fuglafæri í allan dag en púttin kræktu svolítið á fyrri níu. Ég setti loksins í á 9. braut og kom mér þá af stað. Það er mjög skemmtileg stemning i liðinu mínu og eins og er sitjum við í 8. sætinu. Það er einn dagur eftir í hitanum og ég er spennt fyrir því að mæta á morgun. Vonandi get ég fært mig aðeins ofar á töflunni,“ segir Guðrún Brá að lokum.

Það er heimakonan Patty Tavatanakit sem leiðir enn eftir hringina tvo á 7 höggum undir pari en nú ásamt Felicity Johnson frá Englandi. Tavatanakit er nýfarin út á seinni níu holurnar svo staðan gæti breyst.

Staðan í einstaklingskppninni

Skorkort Guðrúnar Brár

Skorið er niður í einstaklingskeppninni í dag og flýgur Guðrún Brá í gegnum niðurskurðinn sem áætlað er að miðist við 5 högg yfir par. Þá lýkur liðakeppninni í dag. Lið Guðrúnar Brár hefur náð að hífa sig upp sex sæti á töflunni og situr sem stendur í 8.-9. sæti. Þær Marianne Skarpnord frá Noregi og Linda Wessberg frá Svíþjóð mynda lið með Guðrúnu ásamt áhugakylfingnum Jeffrey Kimble frá Bandaríkjunum.

Lið Whitney Hillier frá Ástralíu hefur þriggja högga forskot í liðakeppninni en ekki hafa allir lokið leik.

Staðan í liðakeppninni