Hellishólar
Hellishólar

Fréttir

Aftur sigraði Dagbjartur á Mótaröð þeirra bestu
Dagbjartur Sigurbrandsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 9. júní 2019 kl. 16:03

Aftur sigraði Dagbjartur á Mótaröð þeirra bestu

Hinn 16 ára gamli Dagbjartur Sigurbrandsson heldur áfram að fara á kostum á Mótaröð þeirra bestu en í dag sigraði hann á Símamótinu og hefur því unnið bæði mót tímabilsins til þessa.

Símamótið fór fram á Hlíðavelli um helgina en leiknar voru 54 holur á tveimur dögum. Eftir fyrstu tvo hringina, sem fóru fram á laugardaginn, voru Dagbjartur og Andri Þór Björnsson jafnir í forystu og því spennandi lokadagur framundan.

Keppnin var jöfn og spennandi milli þeirra á lokahringnum auk þess sem Kristófer Karl Karlsson blandaði sér í baráttu um sigur. Þegar þrjár holur voru eftir af mótinu var Dagbjartur með eins höggs forystu á Andra Þór. Dagbjartur sýndi þá stáltaugar líkt og í fyrsta mótinu og fékk tvo fugla á síðustu þremur holunum og fagnaði að lokum fjögurra högga sigri.

Kristófer Karl Karlsson, GM, endaði í þriðja sæti í mótinu á höggi undir pari í heildina.

Staða efstu kylfinga í karlaflokki á Símamótinu:

1. Dagbjartur Sigurbrandsson, GR, -6
2. Andri Þór Björnsson, GR, -2
3. Kristófer Karl Karlsson, GM, -1
4. Ólafur Björn Loftsson, GKG, 0
5. Hákon Örn Magnússon, GR, +2