Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

Andy Sullivan ekki sáttur að PGA spilarar fái stig á heimslistann
Andy Sullivan.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 24. júní 2020 kl. 22:08

Andy Sullivan ekki sáttur að PGA spilarar fái stig á heimslistann

Á meðan allar stærstu mótaraðir heims eru í pásu út af Covid-19 heimsfaraldrinum, þá eru kylfingar PGA mótaraðarinnar að hefja sitt þriðja mót á jafn mörgum vikum á morgun. Þrátt fyrir nýleg smit heldur mótaröðin ótrauð áfram og hefst Travelers Championship mótið í fyrramálið.

Eftir að PGA mótaröðin fór af stað að nýju hefur heimslisti karla verið uppfærður vikulega en ekki eru allir kylfingar sáttir við að það skuli vera gert.

Englendingarnir Andy Sullivan og Paul Waring voru í viðtali á BBC og sögðust þeir báðir mjög ósáttir með þá ákvörðun að láta mótin á PGA mótaröðinni gilda á heimslistann.

„Þetta er klárlega mjög pirrandi,“ sagði Sullivan. „Mikið af markmiðum hvers árs tengjast heimslistanum og að komast inn í risamótin og heimsmótin.“

Sullivan hefur fallið niður um sjö sæti síðan PGA mótaröðin fór af stað að nýju og getur ekkert gert í því.

„Þeir eru að fá stig á meðan ég bókstaflega sit heima og horfi á þá taka stigin af mér. Ég væri að segja ósatt ef ég segðist ekki vera alveg brjálaður og mér finnst þetta vera algjör brandari. Þetta er mjög ósanngjarnt. Þetta er heimslistakerfi ekki kerfi fyrir bandarísku mótaröðina.“