Fréttir

Ásatvenna á Garðavelli
Hafsteinn Gunnarsson með boltann við 8. holu Garðavallar. Ljósmynd: Facebook/GL
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
laugardaginn 16. júlí 2022 kl. 00:17

Ásatvenna á Garðavelli

Hafsteinn Gunnarsson sló draumahögg allra kylfinga tvisvar á Garðavelli á Akranesi með þriggja daga millibili

Alla kylfinga dreymir um að fara holu í höggi en langt í frá allir okkar sjá þann draum verða að veruleika. Talið er að líkurnar séu ekki meiri en 1 á móti 12.000 á að áhugakylfingur slái draumahöggið á dæmigerðum 18 holu velli.

Hafsteinn Gunnarsson, félagi í Golfklúbbnum Leyni, sló draumahöggið í fyrsta sinn sl. mánudag. Höggið sló hann á 18. holu Garðavallar með 8 járni á móti svolitlum vindi.

18. holan á Garðavelli er 120 metrar af gulum teigum.

„Ég fékk hátt boltaflug og hann lenti um 2 metra frá holu og rúllaði svo bara í. Við stóðum þarna á teignum og sáum hann fara ofan í holuna en ég þorði samt ekki að fagna fyrr en ég var viss um að hann væri í holunni. Það var geggjuð tilfinning að ná þessu og það á heimavelli,“ sagði Hafsteinn í samtali við kylfing.is og að vonum kampakátur.

Hafsteinn lét ekki þar við sitja. Hann gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 8. braut Garðavallar sl. fimmtudag.

„Aftur var smá mótvindur. Ég sló með 6 járni en 8. holan er 152 metrar á gulum teigum. Ég hitti boltann vel og hann stefndi beint á pinna. Ég segi við félagana að hann verði of stuttur en svo lendir hann einhverja 3 metra frá holu og hverfur ofan í hana. Við vorum auðvitað öll alveg mát - þetta er auðvitað ekki hægt.“

Hafsteinn hefur stundað golf í um 20 ár og er með 11 í forgjöf. Hann sagði hópinn hafa fagnað vel þegar mannskapurinn var búinn að jafna sig.

Hafsteinn Gunnarsson hreykinn eftir fyrsta draumahöggið. Hann grunaði líklega ekki að þau yrðu orðin tvö seinna í vikunni. Ljósmynd: Facebook/GL