Nettó - Samkaup
Nettó - Samkaup

Fréttir

Átta ára golfsnillingur á Akureyri
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 6. júlí 2021 kl. 09:02

Átta ára golfsnillingur á Akureyri

Fór holu í höggi og endaði í 2. sæti í Norðurlandsmótinu eftir bráðabana í flokki 12 ára og yngri

Átta ára kylfingur í Golfklúbbi Akureyrar hefur vakið athygli fyrir hæfni sína og áhuga á golfíþróttinni. Axel James Wright er nánast fæddur með kylfuna í höndunum og í Norðurlandsmótinu 4. júlí sl. fór hann holu í höggi og endaði í 1.-2. sæti í flokki 12 ára og yngri. Axel gæti verið yngsti kylfingurinn hér á landi að fara holu í höggi en kylfingur.is hefur ekki fengið það staðfest.

Axel James náði draumahögginu á 1. braut en í mótinu var ræst út á öllum teigum og leiknar voru 9 holur á golfvellinum á Dalvík. Þegar Axel kom á fyrstu holu sem er par 3 og 116 metrar af rauðum teigum tók ungi kylfingurinn upp dræverinn og hitti frábært högg. 

GKG sumarhermar
GKG sumarhermar

„Boltinn lenti rétt fyrir framan flöt og við horfðum við svo á hann rúlla inn að stöng og beint í holu,“ segir Brynja Herborg, móðir hans en hún og faðir drengsins, Englendingurinn Jason James Wright eru áhugasamir kylfingar og eftir að hafa kynnt íþróttina fyrir syni sínum var ekki aftur snúið. Þegar hann fagnaði draumahögginu sagði hann að mamma sín hefði ekki farið holu í höggi og þótti það skemmtilegt.

Axel endaði svo í bráðabana um sigurinn en varð að sætta við við 2. sætið í mótinu en engu að síður frábær árangur hjá 8 ára drengnum í flokki 12 ára og yngri.

Axel James er fæddur 14. ágúst 2012 og verður því 9 ára í ágúst nk. Hann hefur til þessa leikið á byrjendateigum en í vor var ákveðið að færa hann á rauðu teigana, í samráði við þjálfara til að fá meiri áskorun því fuglar voru að verða daglegt brauð hjá drengnum. 

Þjálfarar hans eru Heiðar Davíð Bragason, Stefanía Kristín Valgeirsdóttir og Magnús Birgisson. Axel er mikill íþróttamaður og æfir einnig fótbolta, handbolta og pílukast.

Að sögn móður hans er átrúnaðargoð drengins enginn annar en nafni hans, Axel Bóassson, atvinnukylfingur og Íslandsmeistari í höggleik. Draumur hans rættist síðasta sumar þegar þeir nafnar hittust og Axel James fékk áritaða húfuna sína og áritaðan golfbolta hjá meistaranum.

„Pressan á drengnum er lítil sem engin, enda eru það þjálfararnir sem sjá um að kenna honum og foreldrarnir sjá um að hafa þetta sem skemmtilegast, svo þetta verði ekki kvöð fyrir hann. Einstaka sinnum þarf þó að minna hann á það sem þjálfarar hafa sagt en aðalatriðið er að hafa þetta skemmtilegt,“ segir Brynja móðir hans.