Fréttir

Evrópa hélt Solheim bikarnum eftir 14:14 jafntefli - æsispennandi lokadagur
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 24. september 2023 kl. 16:43

Evrópa hélt Solheim bikarnum eftir 14:14 jafntefli - æsispennandi lokadagur

Evrópa hélt Solheim bikarnum eftir 14:14 jafntefli gegn Bandaríkjunu og æsispennandi lokadag á Finca Cortesin í Andalúsíu á Spáni. Hin spænska Carlota Ciganda vann hina bandarísku Nelly Korda í næst síðasta leiknum á 17. holu og tryggði fjórtánda stigið fyrir Evrópu og jafntefli. 

Miklar sveiflur voru á lokadeginum þar sem leiknir eru 12 tvímenningar. Snemma dags var Evrópa í forystu en þegar leið á daginn virtist sigurinn vera að fara yfir til þeirra  bandarísku. Nokkrir leikir voru þó í járnum í blá lokin og þar voru taugar þeirra evrópsku sterkari. Sigur hinnar 36 ára Karoline Hedwall frá Svíþjóð sem var þrjár niður eftir tólf holur en vann síðustu fimm af sex holunum, hafði mikil áhrif og gaf Evrópu von. Mómentið var þó hjá þeirri spænsku þegar hún tryggði fjórtánda stigið. 

Keppnin var mjög jöfn nema fyrsta morguninn þegar Ameríka vann alla fjórmenningsleikina og komst í 0:4. Þær evrópsku gáfust þó ekki upp og minnkuðu muninn í tveimur af næstu þremur viðureignum þannig að þegar lokadagurinn hófst var staðan 8:8.

Hin sænska Suzann Pettersen var einvaldur evrópska liðsins en hún tryggði Evrópu sigur síðast þegar leikið var í Evrópu 2019. Evrópa vann einnig þegar leikið var í Bandaríkjunum 2021 og heldur því bikarnum þriðja skiptið í röð. Staðan frá upphafi er þó Bandaríkjunum í hag, 10,5-7,5 en þetta var í fyrsta skipti sem það verður jafntefli. Þegar það gerist heldur titilhafi bikarnum. 

Næst verður leikið um Solheim bikarinn í Bandaríkjunum á næsta ári en venjan er að leika annað hvert ár, árið þegar Ryder bikarinn fer ekki fram. Í heimsfaraldri frestaðist Ryder-inn og var leikinn 2021 og það þykir ekki vænlegt að vera með þessu tvö stærstu golfmótin í heiminum á sama ári. Því var ákveðið að Solheim yrði færður. Um næstu helgi verður Ryder bikarinn leikinn í Róm á Ítalíu.

Púttið hjá Ciganda sem tryggði jafnteflið og þær evrópsku fögnuðu innilega.

Hedwall sneri leiknum gegn Ewing sér og tryggði sér sigur og hjálpaði Evrópu að ná jafntefli.