Fréttir

Evrópumótaröð karla: Rai fagnaði sigri eftir bráðabana
Aaron Rai.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 4. október 2020 kl. 18:29

Evrópumótaröð karla: Rai fagnaði sigri eftir bráðabana

Það var mikil spenna á lokadegi Scottish Open mótsins sam lauk í dag á Evrópumótaröð karla. Kylfingar skiptust á að vera í forystu en svo fór að lokum að Englendingurinn Aaron Rai fagnaði sigri eftir bráðabana við Tommy Fleetwood.

Fyrir daginn var Robert Rock í forystu. Hann lék á tveimur höggum yfir pari fyrstu níu holurnar og þeir Rai og Fleetwood nýttu sér það. Fleetwood lék á 67 höggum í dag, eða fjórum höggum undir pari, á meðan Rai lék á 64 höggum, eða sjö höggum undri pari. Þeir komu báðir í hús á samtals 11 höggum undir pari. Rock náði með góðum síðari níu holum að koma sér aftur í baráttuna en skolla á lokaholunni gerði vonir hans að engu því hann kom í hús á samtals 10 höggum undir pari.

Á fyrstu holu bráðabanans var Fleetwood í betri málum eftir teighöggið þar sem Rai sló í glompu. Rai kom sér þó langleiðina inn á flöt í öðru höggi og eftir glæsilegt vipp náði hann sér í gott par. Fleetwood missti aftur á móti stutt pútt fyrir pari og var því sigurinn í höfn hjá Rai.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.