Fréttir

Evrópumótaröð karla: Wallace og Otaegui í forystu á Skoska meistaramótinu
Matt Wallace.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 17. október 2020 kl. 10:16

Evrópumótaröð karla: Wallace og Otaegui í forystu á Skoska meistaramótinu

Spánverjinn Adrian Otaegui og Englendingurinn Matt Wallace eru í forystu eftir tvo hringi á Skoska meistaramótinu sem fram fer á Evrópumótaröð karla. Þeir eru höggi undan næstu mönnum.

Otaegui fylgdi eftir ótrúlegum fyrsta hring upp á 62 högg með hring upp á 70 högg í gær. Hann fékk fimm fugla á öðrum hringnum en á móti fékk hann þrjá skolla og kom hann því í hús á tveimur höggum undir pari.

Á meðan lék Wallace á fimm höggum undir pari, eða 67 höggum, þar sem að hann fékk sex fugla og tapaði aðeins einu höggi. Hann er aðeins búinn að tapa einu höggi í öllu mótinu. Þeir Wallace og Otaegui eru því samtals á 12 höggum undir pari.

Einu höggi á eftir þeim er Aaron Rai. Hann lék á 67 höggum, eða fimm höggum undir pari þar sem hann fékk meðal annars tvo erni á hringnum.

Þriðji hringur mótsins er farinn af stað en síðustu menn eiga enn eftir að hefja leik. Hægt er að fylgjast með skori keppenda hérna.


Adrian Otaegui.