Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

Fyrirliðar Ryderliðanna sáttir við frestunina
Padraig Harrington.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 8. júlí 2020 kl. 21:33

Fyrirliðar Ryderliðanna sáttir við frestunina

Eins og greint var frá fyrr í dag hefur Ryder bikarnum verið frestað um ár vegna kórónuveirufaraldursins. Meðal ástæðna fyrir frestuninn var sú að ekki væri hægt að tryggja það að áhorfendur gætu mætt til að styðja við sín lið.

Fyrirliðar liðanna tveggja eru báðir sáttir við þessa ákvörðun.

Steve Stricker sem fer fyrir hönd bandaríska liðsins sagði að Ryder bikar án áhorfenda væri ekki ekki mikils virði.

„Ryder keppni án áhorfenda er ekki mikil Ryder keppni. Áhorfendur eru stór hluti af þessari keppni og kylfingar nærast á orkunni sem kemur frá þeim. Fólk elskar að koma og horfa á þessa keppni. Þetta var erfið ákvörðun og ég er viss um að þetta hafi verið rétta ákvörðunin.“

Steve Stricker.

Padraig Harrington sem er fyrirliði evrópska liðsins tók í sama streng og sagði þetta hafi verið erfið ákvörðun en sú rétta úr því sem komið var.

„Að fresta keppninni um ár var aldrei að fara að vera auðvelt þar sem það eru margir þættir sem þarf að huga að. Mér finnst þetta aftur á móti vera rétt ákvörðun á þessum fordæmalausu tímum.“