Fréttir

Hatton segist aldrei hafa liðið jafn vel fyrir risamót og núna
Tyrrell Hatton.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 10. nóvember 2020 kl. 16:20

Hatton segist aldrei hafa liðið jafn vel fyrir risamót og núna

Englendingurinn Tyrrell Hatton segist aldrei hafa verið jafn tilbúinn fyrir risamót og hann er fyrir Masters mótið sem hefst á fimmtudaginn. Hann hefur átt góðu gengi að fagna síðast liðið ár en á þeim tíma hefur hann unnið þrjú stór mót.

Hatton er í níunda sæti heimslistans og hefur hann aldrei verið ofar á þeim lista. Á þessum degi fyrir ári síðan fagnaði hann sigri á Turkish Airlines Open mótinu og hlaut að launum 2 milljónir bandaríkjadollara. Fyrr á þessu ári vann hann svo sitt fyrsta mót á PGA mótaröðinni þegar að hann bar sigur úr býtum á Arnold Palmer Invitational mótinu og að lokum fagnaði hann sigri á stærsta móti ársins haldi eingöngu af Evrópumótaröðinni nú á dögunum, BMW PGA Championship mótinu.

„Fyrir mér hefur árið 2020 verið ansi sérstakt ár. Ég held að ég hafi aldrei verið að leika betra golf og á leið í risamót en maður verður bara að sjá hvernig vikan þróast.“

„Þetta er ekki staður sem mér hefur gengið vel á í fortíðinni en mér finnst þetta skemmtilegur völlur. Mótið hefur einhvernveginn aldrei gengið eins vel og ég hef búist við. Ég er spenntur að sjá hvernig gengur núna.“