Fréttir

Heimslisti kvenna: Ko með afgerandi forystu á toppnum
Jin-Young Ko.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 10. september 2019 kl. 08:00

Heimslisti kvenna: Ko með afgerandi forystu á toppnum

Engar breytingar urðu á efstu sætum nýs heimslista kvenna sem var birtur í dag.

Jin-Young Ko er sem fyrr í efsta sæti heimslistans en hún er með 10,23 stig eftir frábært tímabil á LPGA mótaröðinni. Ko hefur sigrað á fjórum mótum í ár en hún náði einnig mögnuðu afreki fyrir rúmri viku þegar hún lék 114 holur í röð án þess að fá skolla.

Í næstu viku mun Ko jafna árangur Sung Hyun Park en þá verður hún búin að verma efsta sætið í 20 vikur sem er 10. besti árangur leikmanns frá stofnun listans árið 2006.

Park er einmitt önnur á heimslistanum með 8,14 stig, tæplega tveimur stigum á undan Lexi Thompson sem er þriðja.

Af íslensku kylfingunum er Valdís Þóra Jónsdóttir GL efst í 572. sæti en hún fer niður um 7 sæti milli vikna. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR fer einnig niður listann milli vikna og er nú dottin niður í 692. sæti. Guðrún Brá er svo þriðji og neðsti íslenski kylfingurinn á listanum en hún er í 839. sæti og nálgast Ólafíu og Valdísi.

Hér er hægt að sjá stöðuna á heimslista kvenna í golfi.

Icelandair - 21 jan 640
Icelandair - 21 jan 640