Jordan Spieth stressaðari á Opna mótinu en þegar hann bað kærustu sinnar
PGA mótaröðin hefst að nýju á morgun þegar Sentry Tournament of Championship mótið fer fram. Mótið er leikið á Maui, sem er ein af eyjum Havaí, og eru aðeins kylfingar með sem unnu mót á PGA mótaröðinni á síðasta tímabili.
Jordan Spieth er að sjálfsögðu mættur til leiks, en hann stóð uppi sem sigurvegari á þremur mótum á síðasta ári, þar á meðal Opna mótinu.
Í viðtali fyrir mótið staðfesti Spieth að hann og kærasta hans, Annie Verrett, hefðu trúlofast milli jóla- og nýárs. Hann var í kjölfarið spurður að því hvort að hann hefði verið stressaðari á síðari níu holunum á Opna mótinu, þegar að hann háði harða baráttu við Matt Kuchar, eða þegar að hann bað Verrett. Ef marka má svör Spieth virðist hann hafa stál taugar þegar kemur að kærustu sinni.
„Ég var örugglega meira stressaður á Opna mótinu“ sagði Spieth brosandi. „Ég var með mikið sjálfstraust í vetur. Þetta var gott frí sem ég átti. Ég mun eflaust gleyma hvernig mér leið á Opna mótinu, en ég mun ekki gleyma hvernig mér leið þegar við trúlofuðumst.“

Annie Verrett og Jordan Spieth hafa verið saman síðan í menntaskóla.

