Kanntu óskrifuðu golfreglunar?
Auðvitað þekkja allir grunnatriðin, eins og að tala ekki í baksveiflu annars leikmanns og að ganga ekki í púttlínu einhvers, en það eru líka aðrar reglur sem þarf að hafa í huga. Til að hjálpa þér að verða betri kylfingur höfum við tekið saman 12 pirrandi siðareglubrot sem þú áttar þig kannski ekki einu sinni á.
1. Að byrja rútínuna of seint
Félagi þinn er nýbúinn að pútta niður, svo nú er komið að þér að gefa 3 metra púttinu þínu fulla 360 gráðu greiningu og skoða það frá öllum sjónarhornum. Rangt. Þú áttir að vera búinn að gera þetta á meðan aðrir voru að pútta. Þegar komið er að þér ætti aðeins að vera eftir að líta snöggt á línuna og pútta.
2. Að biðja um að fá stöngina aftur í holuna
Samkvæmt nýju reglunum hefurðu rétt á að hafa stöngina í, en ekki leggja þessa þrjósku á alla í hópnum. Ef þú púttar fyrst máttu skilja hana eftir, en þegar stöngin hefur verið tekin upp, þá er það endanlegt. Hún á að vera úr holunni.
3. Að taka ekki stöngina
Nema þú sért í hópi þar sem allir vilja hafa stöngina í (og hér er ástæða fyrir því af hverju þeir ættu alltaf að taka hana) þá er það þín skylda að taka stöngina úr öðru hverju. Þú þarft ekki að gera það á hverri holu, en að bjóða sig fram er góð siðvenja og sýnir að þú sért virkur þátttakandi. Enginn vill þurfa að stíga frá púttinu sínu til að taka stöngina af því þú labbaðir hugsunarlaust fram hjá.
4. Að æfa löng pútt á troðfullum æfingaflötum
Já, fjarlægðarstjórnun er mikilvæg, en ekki setja orðspor þitt í hættu með því að reyna of mikið að stilla hraðann fyrir hringinn. Ef æfingaflötin er full, haltu þig við pútt sem eru 7 metrar eða styttri. Lengri pútt enda líklega á því að rúlla inn á svæði þar sem fólk er kurteislega að æfa sína 3 metra.
5. Að taka eina holu yfir á lítilli æfingaflöt
Þetta er aðeins vandamál á litlum eða fjölmennum æfingaflötum. Þegar eftirspurn eftir holum er mikil, forðastu að „eigna þér“ eina holu með ýmsum æfingum. Ef þú þarft að vinna í högginu og plássið er lítið, farðu út á jaðar flatarinnar og púttraðu að teig.
6. Að byrja að ganga í baksveiflu
Algeng mistök of ákafra kylfinga. Þú stendur kyrr þegar leikmaðurinn byrjar sveifluna, en þú getur ekki stillt þig og stígur af stað í átt að boltanum þínum rétt áður en hann slær. Ef þú ert innan sjónsviðs leikmannsins er fátt meira truflandi en svona þjófstart.
7. Að skilja hrífur eftir í glompum
Þegar þú skilur hrífuna eftir í sandinum neyðirðu næsta leikmann til að skilja eftir óþarfa fótspor til að ná í hana. Settu hana frekar á brún glompunnar, helst fjarri algengri leiklínu svo hún sé ekki fyrir.
8. Að huga ekki að skugganum þínum
Þetta setur leikfélagana í óþægilega stöðu. Nema þeir þrái árekstra munu þeir líklega ekki biðja þig um að færa þig en skuggi yfir boltanum getur verið truflandi.
9. Að ganga á milli leikmanns og boltans hans
Félagi þinn er hokinn nokkrum fetum fyrir aftan boltann sinn að lesa púttið, þegar þú labbar beint á milli hans og boltans. Þetta er ekki bara pirrandi heldur líka vanvirðing.
10. Að setja pokann ekki í átt að næsta teig
Þú hefur púttað niður fyrir fugli og ert spenntur að fara fyrstur á næsta teig. Vandamálið er að pokinn þinn er hinum megin við flötina, svo félagar þínir þurfa að bíða á meðan þú bætir upp fyrir lélega skipulagningu. Einu sinni er þetta fyrirgefanlegt, en endurtekið mun þetta ekki aðeins pirra hópinn heldur líka hópinn fyrir aftan sem stendur með hendur á mjöðmum og horfir á þig þvera flötina.
11. Að standa í púttlínunni
Sumum kylfingum er meira annt um þetta en öðrum, en öruggast er að forðast að dvelja í línunni fyrir aftan holuna þar sem aðrir eru að pútta. Þetta á sérstaklega við ef þú ert fljótur að ganga, tilbúinn að komast aftur að boltanum þínum. Að vera utan sjónsviðs er góð regla á flötinni til að forðast að pirra taugaóstyrka félaga þegar þeir pútta.
12. Að mæta seint á teig
Þú ert tæknilega séð ekki of seinn, en að hlaupa á fyrsta teig örfáum mínútum fyrir rástíma getur sett hópinn í vanda. Eiga þeir að fara af stað án þín eða leyfa hópnum á eftir að fara? Og enn verra, á annasömum velli gæti starfsfólk parað félaga þína með stökum kylfingi til að fylla í alla ráshópa.
Margeir Vilhjálmsson.

