Fréttir

Koepka snýr aftur á PGA mótaröðina - gefur 625 millj.kr. til góðgerðarmála
Þriðjudagur 13. janúar 2026 kl. 16:24

Koepka snýr aftur á PGA mótaröðina - gefur 625 millj.kr. til góðgerðarmála

Brooks Koepka snýr aftur á PGA mótaröðina síðar í þessum mánuði og mótaröðin hefur boðið fyrrverandi félögum hans úr LIV Golf sama tilboð, þeim Jon Rahm, Bryson DeChambeau og Cam Smith.

PGA mótaröðin tilkynnti á mánudag að Koepka muni keppa á Farmers Insurance Open á Torrey Pines síðar í þessum mánuði samkvæmt svokallaðri „Returning Member Program“. Koepka yfirgaf PGA mótaröðina fyrir LIV Golf eftir U.S. Open 2022. Hann sleit hins vegar samstarfi við sádi-arabísku mótaröðina í desember og sótti nýlega um endurinngöngu í PGA mótaröðina.

Í tilefni af endurkomu Koepka leyfir mótaröðin leikmönnum sem hafa verið fjarverandi í að minnsta kosti tvö ár og hafa unnið Players Championship, Masters, PGA Championship, U.S. Open eða The Open á tímabilinu 2022–2025 að snúa aftur. Aðeins þrír LIV-leikmenn uppfylla þessi skilyrði: Smith (sigurvegari Players 2022 og The Open 2022), Rahm (Masters 2023) og DeChambeau (U.S. Open 2024). Koepka varð gjaldgengur með sigri sínum á PGA Championship 2023.

Samkvæmt vefsíðu PGA mótaraðarinnar er „áætlunin aðeins opin fyrir tímabilið 2026 fyrir gjaldgenga leikmenn sem geta fylgt reglum PGA mótaraðarinnar og samþykkt skilmála áætlunarinnar fyrir 2. febrúar 2026.“ Að auki mun Koepka, og hver sá sem samþykkir boðið, ekki eiga rétt á FedEx Cup bónusgreiðslum og mega ekki taka þátt í hlutabréfaáætlun mótaraðarinnar næstu fimm ár. Koepka hefur einnig samþykkt að gefa 5 milljónir dala til góðgerðarmála.

Í bréfi til leikmanna frá nýjum forstjóra PGA mótaraðarinnar, Brian Rolapp, sagði mótaröðin að áætlunin væri ekki vísbending um hvernig staðið verði að málum í framtíðinni, heldur viðbragð við „einstökum aðstæðum“. Koepka og aðrir leikmenn fá ekki boð frá styrktaraðilum inn á svokallaða „signature“-viðburði og verða að vinna sér inn þátttökurétt í þá með hefðbundnum leiðum. Þeir munu heldur ekki hafa áhrif á stærð leikmannahópa né taka sæti frá öðrum í FedEx Cup stigakeppninni, þar sem þeir verða taldir sérstaklega.