Kylfingar íþróttafólk ársins á Selfossi og í Mosfellsbæ
Nokkrir kylfingar hafa verið valdir íþróttamenn sinna sveitarfélaga. Heiðrún Anna Hlynsdóttir og Heiðar Snær Bjarnason voru valin íþróttafólk Árborgar 2025. Þá var Kristófer Karl Karlsson valinn íþróttamaður Mosfellsbæjar.
Heiðrún átti frábært golfár þar sem hún sigraði m.a. í fjórum af sex stigamótum GSÍ, lék með landsliðinu og er efst íslenskra kvenna á heimslista áhugamanna.
Heiðar hefur vaxið mikið sem afrekskylfingur en hann varð m.a. í 12. sæti á Íslandsmótinu á Hvaleyri. Þá fór hann holu í höggi á mótinu sem sýnt var í beinni útsendingu.
Kristófer var með tvo stóra sigra á keppnistímabilinu en hann var klúbbmeistari Golfklúbbs Mosfellsbæjar í Meistaraflokki í þriðja sinn á ferlinum á 9 höggum undir pari. Hann vann svo Korpubikarinn sem er eitt af stórmótum sumarsins á mótaröðinni en hann lék á 17 höggum undir pari og sló þar með mótsmet Korpubikarsins.

