Örninn #galvin
Örninn #galvin

Fréttir

Nýr „tölvu“-pútter hannaður í Vestmannaeyjum
Föstudagur 15. maí 2020 kl. 11:05

Nýr „tölvu“-pútter hannaður í Vestmannaeyjum

Pútterinn er hannaður í forritinu Fusion 360 og svo prentaður út í vatnsskurðarvél. Ungir Eyjamenn gerðu könnun meðal hundrað kylfinga. Vonast til að geta haldið áfram með framleiðslu á pútternum og jafnvel þróa þá tækni yfir í aðrar kylfur.

Ungir Eyjamenn í Framhaldsskóla Vestmannaeyja hafa unnið að hönnun pútters sem inniheldur greiningartæki sem greinir púttstroku kylfings. Greiningartækið er innbyggt í kylfuhausinn. Þeir stofnuðu fyrirtækið „Iqroll“ í verkefninu undir merkjum Ungra frumkvöðla og voru eitt af tveimur sem komust í 25 liða úrslilt í alþjóðlegri keppni sem haldin er á vegum  Junior Achievement en það eru alþjóðleg, frjáls félagasamtök sem starfa í 123 löndum.

Um  10,5 milljón nemenda taka þátt í verkefnum á vegum samtakanna á ári hverju. Markmið Junior Achievement  er að undirbúa ungt fólk fyrir framtíðina og auka færni þeirra til atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar með því að stuðla að aukinni nýsköpunar-, frumkvöðla- og viðskiptamennt í skólum.

Hugmyndin fæddist í FabLab

Eyjafréttir ræddu við Rúnar Gauta Gunnarsson sem er einn af frumkvöðlunum á bakvið verkefnið en auk hans koma að verkefninu þeir Sæþór Páll Jónsson, Kristófer Tjörvi Einarsson, Daníel Scheving Pálsson, Sævald Gylfason og Leó Viðarsson. „Hugmyndin fæddist þegar nokkrir okkar voru á fyrirlestri í FabLab um þrívíddarhönnunarforritið Fusion 360. Þar sáum við að hægt var að gera nánast hvað sem er og datt okkur í hug að hanna okkar eigin pútter.“ Flestir þeirra spila eða hafa verið í golfi og því lá beinast við að vaða í verkið.

Getur hver sem er smíðað pútter? „Í rauninni getur hver sem er hannað sinn eigin pútter. Hins vegar þarf ýmsar vélar í framleiðsluferlið sem ekki er auðvelt að fá aðgang að. Pútterinn okkar er hannaður í forritinu Fusion 360 og svo prentaður út í vatnsskurðarvél. Við vorum svo heppnir að fá mikla hjálp frá Sigursteini Marinóssyni en hann kenndi okkur á SAS vatnsskurðarvélina í Framhaldsskólanum.“

Frumgerðin af pútternum er byggður úr áli. „Seinna stefnum við á að búa pútterinn til úr stáli sem     gæti verið þungt eða létt eftir því sem kaupandinn vill. Vélaverkstæðið Þór styrkti okkur í verkefninu og gaf okkur 8 kg af stáli í upphafi annar. Úr því er hægt að vinna um fimm púttera sem gaman verður að sjá hvernig koma út. Álið fengum við úr FÍV.“

Upplýsingar um púttið beint í símann

Rúnar Gauti segir að eins og er sé útlit púttersins fullunnið en næsta skref sé að koma tölvunni inn í kylfuhausinn. FabLab smiðjan í Vestmannaeyjum útvegaði þeim MicroBit tölvu sem drengirnir hafa verið að forrita. „Seinna getum við hannað minni tölvur eða rafrásir sem nýta aðeins þau atriði sem við þurfum í pútterinn en það gerir okkur kleift að minnka tölvuna til muna. Þegar sú vinna er tilbúin verður hægt að nálgast allar upplýsingar er varða púttið þitt í snjallforriti sem mun fylgja vörunni.“

Rúnar Gauti segir að IQroll pútterinn verði löglegur til keppni, þó aðeins ef tölvan verði fjarlægð úr kylfunni á meðan keppt er. „Við munum framleiða mismunandi gerðir, bæði með og án greiningartækis. Pútterinn sem ekki inniheldur greiningartækið verður ávallt löglegur en hinn er aðallega hugsaður til æfinga.“

Ætla að halda áfram í sumar                                                                                                                      

Eru uppi hugmyndir um að smíða kylfu eða járn til að greina sveiflu eða annað? „Eins og er ætlum við að einblína á að fullvinna pútterhönnunina en síðar gætu fleiri möguleikar opnast hvað varðar framleiðslu á kylfum. Ef við færum í kylfuframleiðslu myndi hugmyndafræðin vera mjög svipuð en tæknin og það sem að baki hennar stendur mun breytast. Þá aðallega vegna aukinnar sveiflulengdar og sveifluhraða. Hægt væri að nota infra-rauða geisla í sveiflugreininguna og skynjara sem myndu virka með þeim. Hins vegar er okkar plan að klára pútterhönnunina fyrst.”

Rúnar Gauti segist vonast til að getað prófað vöruna í ágúst. „Þá verðum við aftur komnir með aðgang að vélunum í vélasal Framhaldsskólans og getum því framleitt fleiri púttera. Einnig stefnum við á að byrja að forrita af ráði á næstunni. Það hefur verið gaman að sjá hvernig pútterinn virkar við góðar aðstæður, og höfum við mikið notað pútterinn að undanförnu á golfvellinum í Eyjum.“

Félagarnir stefna að því að vinna áfram að verkefninu í sumar. „Við stefnum á að auka framleiðslu um leið og möguleikarnir aukast. Við höfum ekki haft aðgang að vatnsskurðarvélunum síðan í byrjun mars og er spennandi að sjá hvernig þetta þróast á næstunni þegar sá aðgangur opnast á ný.“

Ráðfærðu sig við Birgi kylfusmið

Drengirnir höfðu unnið mikla og góða undirbúningsvinnu áður en þeir fóru af stað með verkefnið. „Í upphafi lögðum við fram markaðsrannsókn sem fékk mjög góð viðbrögð. Við spurðum íslenska kylfinga um hvað þeim fyndist um vöruna, hvað þeir væru til í að borga fyrir hana og hvort að hugmyndin þætti góð. Við fengum rúmlega 100 svör við könnuninni, nær eindregið jákvæð.  Síðar fórum við tveir, ég og Kristófer Tjörvi til Reykjavíkur til þess að tala við reyndasta kylfusmið landsins, Birgir Björnsson. Honum fannst hugmyndin mjög áhugaverð og gaf okkur fullt af ráðum ásamt því að útvega okkur sköft til þess að hefja framleiðsluna.“

Hvað er það nákvæmlega sem pútterinn á að gera eða aðstoða kylfing með? „IQroll pútterinn er hugsaður sem æfingatæki sem greinir púttstroku kylfingsins. Pútterinn mun greina strokuferil, þ.e.a.s. hvort kylfuhausinn er að hitta kúluna á upp eða niðurleið, eða vísandi til hægri eða vinstri miðað við strokuferil. Einnig mun hann sýna sýndarveruleikamyndband af strokunni um leið og þú hittir púttið. Þá er hægt að sjá betur þætti í púttinu sem annars hefðu farið fram hjá manni.“

Stefna hátt

Rúnar Gauti segir að draumurinn sé að geta fylgt þessu verkefni betur eftir. „Við vonumst til að geta haldið áfram með framleiðslu á pútternum og jafnvel þróa þá tækni yfir í aðrar kylfur. Gaman verður að sjá viðbrögð almennings við hugmyndinni og vonandi munum við enda með góða og gagnlega vöru sem fólk vill nota. Við stefnum hátt og horfum björtum augum til framtíðar, sagði ungi frumkvöðullinn að lokum.

Viðtalið við frumkvöðlana birtist fyrst í Eyjafréttum sem gáfu kylfingi.is góðfúslegt leyfi til að birta það.