Fréttir

PGA: Schauffele höggi á undan Stricker og Bradley
Xander Schauffele.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 6. febrúar 2021 kl. 13:59

PGA: Schauffele höggi á undan Stricker og Bradley

Annar dagur Waste Management Phoenix Open mótsins fór fram í gær að viðstöddum 5000 áhorfendum. Þetta er fyrsta mótið á PGA mótaröðinni sem fer fram í Bandaríkjunum sem leyfir áhorfendur sökum Covid-19 heimsfaraldursins. Xander Schauffele er í forystu eftir tvo hringi, höggi á undan þeim Steve Stricker og Keegan Bradley.

Schauffele átti einn af bestu hringjum gærdagsins er hann kom í hús á 64 höggum, eða sjö höggum undir pari. Hann var aðeins á höggi undir pari eftir 11 holur í gær en á síðustu sjö holunum fékk hann fjóra fugla, einn örn og tvö pör. Síðari níu holurnar lék hann því á sex höggum undir pari. Schauffele er samtals á 12 höggum undir pari.

Stricker, sem verður 54 ára gamall síðari í þessum mánuði, er búinn að leika fyrstu tvo hringina á 65 og 66 höggum og er hann því á 11 höggum undir pari. Bradley er einnig á 11 höggum undir pari eftir hringi upp á 66 og 65 högg.

Þriðji hringurinn hefst síðar í dag en skor keppenda má nálgast hérna.