Fréttir

Rory tilkynnir hjónaskilnað rétt fyrir PGA mótið
Rory og Stoll þegar allt lék í lyndi.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 15. maí 2024 kl. 16:11

Rory tilkynnir hjónaskilnað rétt fyrir PGA mótið

Rory McIlroy kemur ekki bara sjóðheitur í PGA risamótið sem hefst á Valhalla vellinum í Bandaríkjunum á morgun, 16. maí, heldur komu fréttir um skilnað hans og Ericku Stoll eins og þruma úr heiðskýru lofti í gær. Rory mætti ekki í fjölmiðlaviðtöl daginn fyrir fyrsta keppnisdag á PGA mótinu vegna tilkynningarinnar.

Rory og Stoll kynntust árið 2012 þegar kappinn kom hlaupandi á teig í Ryder bikarnum. Stoll hjálpaði honum að komast leiðar sinnar á Medinah golfvellinum en Rory var seinn fyrir og litlu munaði að hann mætti of seint á teig. Þau fóru að hittast tveimur árum síðar og gengu í hjónaband árið 2017. Þau eiga þriggja ára dóttur saman.

Nú er bara að sjá hvaða áhrif þessar fréttir hafi á kappann sem hefur verið í feikna góðu formi að undanförnu. Rory á góðar minningar frá Valhalla vellinum en hann sigraði á PGA mótinu þegar það fór þar fram árið 2014, þá nýbúinn að sigra á OPNA mótinu. Síðan eru liðin tíu ár og Rory hefur ekki unnið risatitil síðan en nánast allt annað.