Prósjoppan
Prósjoppan

Fréttir

Scott: Ekki klappa of mikið fyrir Woods
Adam Scott og Tiger Woods á góðri stundu.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 2. desember 2019 kl. 08:00

Scott: Ekki klappa of mikið fyrir Woods

Adam Scott verður á meðal keppenda í Alþjóðaliðinu í Forsetabikarnum sem fer fram dagana 12.-15. desember í Ástralíu. Lið Bandaríkjanna hefur haft mikla yfirburði í keppninni undanfarin ár og vill Scott sjá breytingu á því í ár. 

Meðal þess sem Scott vill sjá breytast er andrúmsloftið nú þegar Forsetabikarinn er haldinn á heimavelli Alþjóðaliðsins.

„Síðast var þetta of vinalegt,“ sagði Scott. „Við viljum græða á heimavellinum og ég verð vonsvikinn ef aðdáendur klappa æstir fyrir Tiger eða öðrum í bandaríska liðinu.

Ég er ekki að segja að það þurfi að vera óíþróttamannslegt, en það hefur alltaf verið áskorun fyrir liðið okkar að ná heimavallarforskoti þar sem það er ekki oft sem stjörnur á borð við Tiger og DJ koma til Ástralíu. Heimamenn eru jafn spenntir að sjá þá eins og hvern annan í okkar liði.

Á sama tíma og við kunnum að meta þá þurfum við ekki að hvetja þá áfram.“