Fréttir

Suzann Pettersen næsti fyrirliði Evrópu í Solheim bikarnum
Suzann Pettersen er næsti fyrirliði Evrópu í Solheim bikarnum.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
þriðjudaginn 30. nóvember 2021 kl. 07:05

Suzann Pettersen næsti fyrirliði Evrópu í Solheim bikarnum

Suzann Pettersen var í gær útnefnd næsti fyrirliði Evrópu í Solheim bikarnum. Keppnin fer næst fram í september 2023 á Finca Cortesín í Andalúsíu á Spáni.

Pettersen hefur mikla reynslu af Solheim bikarnum en hún lék níu sinnum fyrir hönd Evrópu á sínum ferli og hefur auk þess verið tvisvar sinnum aðstoðar fyrirliði eftir að ferlinum lauk.

Hennar eftirminnilegasta augnablik var árið 2019 þegar hún undir lok ferils síns tryggði evrópska liðinu sigur með því að setja niður pútt á 18. holunni í síðasta leiknum á lokadeginum.

Pettersen sem sigraði á tveimur risamótum á sínum ferli og komst hæst í annað sæti heimslistans sagði í viðtali í gær að útnefningin væri mesti heiður sem henni hefði hlotnast í golfinu. Hún hafi einnig sterka tengingu við Spán og svæðið sem skemmi ekki fyrir.