Fréttir

Valdís náði sínum fjórða besta árangri
Valdís Þóra Jónsdóttir.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 14. mars 2020 kl. 12:54

Valdís náði sínum fjórða besta árangri

Valdís Þóra Jónsdóttir var rétt í þessu að ljúka leik á lokadegi Investec South AFrican Women's Open mótinu sem er hluti af Evrópumótaröð kvenna. Í allan dag var Valdís í baráttunni um sigurinn en varð að lokum að láta sér sjöunda sætið lynda.

Fyrir daginn var Valdís fimm höggum á eftir efstu manneskju en staðan breyttist fljótt á fyrstu holunum. Valdís nældi sér í tvo fugla á fyrri níu holunum og var þá komin á fjögur högg undir pari, aðeins höggi á eftir efsta sætinu. Á síðari níu holunum fékk Valdís aftur á móti tvo skolla sem gerði út um vonir hennar á að berjast um sigurinn. Hún endaði því hringinn á 72 höggum, eða pari vallar, og endaði hún mótið jöfn í sjöunda sæti á tveimur höggum undir pari. Að lokum endaði hún þremur höggum á eftir sigurvegara mótsins, Alice Hewson.

Þetta er besti árangur Valdísar á árinu en aðeins þrjú mót hafa verið leikin á þessu tímabili. Í fyrsta mótinu komst hún ekki í gegnum niðruskurðinn og í öðru mótinu endaði hún jöfn í 21. sæti. Þetta er jafnframt í fjórða skiptið sem hún endar á meðal 10 efstu og fjórði besti árangur hennar á mótaröðinni. Hún hefur tvisvar sinnum endaði í þriðja sæti og einu sinni í fimmta.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir var einnig á meðal keppenda en hún komst ekki í gegnum niðurskurðinn.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.