Örninn #galvin
Örninn #galvin

Fréttir

Valdís upp um 30 sæti í Kenýu
Valdís Þóra Jónsdóttir
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 7. desember 2019 kl. 11:37

Valdís upp um 30 sæti í Kenýu

Valdís Þóra Jónsdóttir lék í dag þriðja hringinn á Magical Kenya Ladies Open mótinu á Evrópumótaröð kvenna. Fyrir daginn var hún á 6 höggum yfir pari og sat í 57. sæti. Hún lék hins vegar mjög vel í dag og kom í hús á þremur höggum undir pari sem fleytir henni upp um 30 sæti.

Valdís hóf leik á 1. holu í dag og lék fyrri 9 holurnar á einu höggi yfir pari þar sem hún fékk tvo fugla, þrjá skolla og restin pör. Á seinni 9 holunum var hún svo í miklum fugla gír og nældi sér í fimm fugla og einn skolla. Hún lauk því leik á 69 höggum eða þremur höggum undir pari.

Með þessum frábæra hring fer Valdís upp um 30 sæti, úr því 57. í 27. sæti. Lokahringurinn fer fram á morgun og gæti Valdís með góðum hring komist í topp 10 en hún er eins og staðan er núna fjórum höggum frá efstu 10 konunum.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.