Wolff magnaður á þriðja degi Opna bandaríska meistaramótsins
Kylfingunum fækkar enn sem eru undir pari á Opna bandaríska meistaramótinu en þegar einum hring er ólokið eru aðeins þrír kylfingar undir pari.
Einn þeirra er Matthew Wolff en hann gerði sér lítið fyrir og kom í hús á 65 höggum í dag og er einn í efsta sætinu á samtals fimm höggum undir pari. Hann er aðeins annar kylfingurinn í sögunni til að leika Winged Foot völlinn á 65 höggum á Opna bandaríska meistaramótinu.
Justin Thomas er hinn kylfingurinn sem hefur leikið á 65 höggum og gerði hann það á fimmtudaginn.
Wolff fékk sex fugla á hringnum í dag, þar af fimm á fyrstu níu holunum. Á móti fékk hann einn skolla og kom hann því í hús á fimm höggum undir pari.
Einn í öðru sæti á þremur höggum undir pari er Bryson DeChambeau og að lokum er það Louis Oosthuizen sem er í þriðja sæti á einu höggi undir pari.