Golfklúbbur Kiðjabergs
Golfklúbbur Kiðjabergs

Kylfingur dagsins

59 punkta hringur - forgjafasvindlari?
Sigfús stendur vaktina alla virka daga í fiskbúðinni sinni í Skipholti 70.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 19. apríl 2024 kl. 07:00

59 punkta hringur - forgjafasvindlari?

Kylfingur dagsins snýr til baka eftir frí í vetur en stefnt er að því að hafa þetta vikulegan dálk í sumar hið minnsta. Þessi kylfingur er ekki af ódýrari gerðinni, er Ólympíufari og ekki nóg með það, tók silfurverðlaun í Peking árið 2008 með íslenska handboltalandsliðinu. Sigfús Sigurðsson átti frábæran handboltaferil og lék lengstum sem atvinnumaður, bæði á Spáni og í Þýskalandi. Handboltaferlinum lauk árið 2013 þegar hnén sögðu hingað og ekki lengra og þá endurnýjaði Fúsi kynnin við golfkylfurnar en hann hafði prófað íþróttina sem gutti. Eftir að hafa farið í sveiflubreytingar og hækkað úr 18 í 26 í forgjöf, náði Sigfús hring upp á 59 punkta, blaðamaður hefur aldrei heyrt um annan eins hring og eflaust var Sigfús sakaður um að vera forgjafarsvindlari þegar hann skilaði skorkortinu!
Sigfús hefur rekið eigin fiskbúð síðan 2018, Fiskbúð Fúsa, í Skipholti 70 og mun glaður taka á móti kylfingum og öðrum sem vilja gæða sér á fiskmeti. Aldrei að vita nema sögur fylgi með, frá handboltaferlinum, golfinu eða bara lífinu yfir höfuð.
Sigfús Sigurðsson er kylfingur vikunnar.

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það? 

Heyrðu ég var um 9-10 ára sirka, pabbi keypti nokkrar kylfur erlendis og kom með heim og ég fór svo á námskeið hjá Úlfari Jóns upp í Grafarholti og svo spiluðum við endalaust á Klambratúni (bjuggum til 2-4 holur þar).

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Helstu afrek í golfinu? 

Úffff…. Ætli það sé ekki 59 punkta hringur í Öndverðanesi c.a. 3 mánuðum eftir hnjáliðs skipti, var að passa hnéð og allt var svo mjúkt og beint.

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum? 

Með vinunum í Borgarnesi í vinamóti, slæ fyrsta högg á 6. holu og slæ hann frekar þunnan, boltinn fer í grjót fyrir framan flötina og skýst til baka og plöggast í mold við hliðina á teignum. Hópurinn sprakk úr hlátri enda frekar aulalegt, ég fæ lausn með drop ball og menn ennþá flissandi þegar ég slæ þriðja högg af teig en þeir fögnuðu geðveikt þegar ég setti hann beint í holu…sem sé hola í höggi en samt bara par.

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með? 

Hmmm….. Náttúrulega Óli Stefáns, Kretzchmar og Franziska Van Almsick sunddrottning.

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf? 

Nei og já… reyni alltaf að vera með jafn mörg tí í vasanum og vinstri buxnavasinn alltaf tómur.

Hvað er það sem þú þarft mest að bæta í þínum golfleik? 

Þarf meiri yfirvegun og að tempra keppnisskapið, svo að hætta að reyna að drepa kúluna í upphafshöggum.

Aldur: 48 (49 í maí)

Klúbbur: GR

Forgjöf: 15

Uppáhaldsmatur: Saltfiskur og grjónagrautur á eftir.

Uppáhaldsdrykkur: Nýmjólk og vatn

Uppáhaldskylfingur:  Auðvitað Tiger Woods og svo af hinum nýrri þá eru Rory og Matsuyama í millu uppáhaldi.

Þrír uppáhaldsgolfvellir: Kiðjaberg, Brautarholt og Borgarnes.

Þrjár uppáhaldsgolfbrautir á Íslandi: 1. holan í Brautarholti, 5. holan í Grafarholti og svo 3.holan á Grindavíkurvelli.

Erfiðasta golfholan: Hola 5 í Brautarholtinu, 209 metra löng par 3 hola yfir vatn/strönd.

Erfiðasta höggið: Næsta högg, öll teighögg hafa verið að reynast mér erfið.                         

Ég hlusta á: Allt of marga og mikið.

Besta skor: Minnir að það sé 78 eða 79 í Öndverðranesi. 

Besti kylfingurinn: Scottie Scheffler.

Golfpokinn

Dræver: Taylor Made Stealth 2, 10,5 gráður.

Brautartré: Taylor Made M5 3tré og Taylor Made M1 5 tré. 

Járn: Srixon Z-965.

Fleygjárn: Cleveland rtx zipcore 48-52-56-60 gráður

Pútter: Odesey 7 white hot

Hanski: Hirzl

Skór: Adidas spikeless, auðvitað nr.50

Sigfús dreymir um að komast undir 10 í forgjöf.

Sigfús í fínum félagsskap á Ólympíuleikunum í Peking, með Lebron James og Chris Paul.

Sigfús átti flottan atvinnumannaferil í handboltanum.

Sigfús í ham með íslenska landsliðinu.

Sigfús fékk ungur kylfur gefins frá pabba sínum.