Kylfukast

Kylfukast: Frjálst farið með sannleikann
Föstudagur 17. apríl 2020 kl. 09:54

Kylfukast: Frjálst farið með sannleikann

Það lenda allir í því að gera uppá bak á golfvellinum. Toppað teighögg ofan í tjörn. Innáhögg sjankað útaf vellinum. Rándýr mistök sem skemma hringinn. Þegar niðurstaðan liggur fyrir er bara eitt lykilatriði. Gefa upp rétt skor. Segja sannleikann. Ekki segja 7 þegar leikið er á 13 höggum. Svindl er dauðasynd í golfi. Það vill enginn spila með svindlara.

Komið hefur í ljós að mjög svo umdeildar reglur um ástundun golfíþróttarinnar á tímum samkomubanns eru ekki skrifaðar af bjúrókratískum fábjána í ráðuneyti. Eða rugludalli. Þær eru skrifaðar af Forseta Golfsambands Íslands án þess að taka nokkuð tillit til þeirra almennu reglna um samkomubann sem gilda á Íslandi. Fyrst sagði forsetinn reglurnar að norskri fyrirmynd. Svo voru þær að danskri. Loks voru þær blanda af norskri og danskri. Við uppflettingu á norsku og dönsku reglunum má ljóst vera að  þekkingu forsetans á norðulandamálum er verulega ábótavant eða þá sannleikurinn er aukaatriði.

Hvergi hefur verið sýnt framá að til hafi staðið að banna golfiðkun á Íslandi, heldur þvert á móti höfðu nokkrir golfklúbbar fengið skriflegar leiðbeingar frá Landlæknisembættinu um að golfiðkun væri í góðu lagi, enda auðvelt að stunda íþróttina og uppfylla skilyrði um samkomubann. Íþróttaiðkun hefur aldrei verið bönnuð, né hefur öllum íþróttamannvirkjum verið lokað. Þessu hefur forsetinn ítrekað haldið fram í viðtölum á ljósvakamiðlum.

Hann hefur gripið er til þess ráðs að viðurkenna að reglurnar 18 séu á margan hátt fáránlegar og núna skipti þetta bara engu máli því frá og með 4. maí verði tilslakanir á reglum um samkomubann. Þetta sé bara allt í fína lagi. Svo einfalt er það ekki. Hvað ef samkomubann verður hert á miðju sumri? Munu reglur forsetans sem eru ÓFRÁVÍKJANLEGAR gilda? Við skulum rétt vona að ekki þurfi að svara því. Afleiðingarnar fyrir rekstur golfklúbba yrðu hrikalegar.

Það er vont að í forsvari íþróttar sem kennir sig við heiðarleika og séntilmennsku sé að finna svindlara. Leikmann sem kann ekki að telja og gefa upp rétt skor. Hagræðir sannleikanum eftir vindátt. Golfhreyfingin situr þögul hjá og lætur þetta yfir sig ganga uppfull af þakklæti í nafni þess að njóta leiks sem aldrei stóð til að banna.

Upphefur svindlarann í stað þess að veita honum frávísun. Illa er komið fyrir hreyfingu sem áður mátti ekki vamm sitt vita. Þvílík skömm. Ekki bara fyrir svindlarann, heldur líka alla þá sem sitja hjá með upplýsingar um rétt skor og láta hann komast upp með að skila röngu.

Með golfkveðju,

Margeir Vilhjálmsson