Public deli
Public deli

Fréttir

Kylfukast: Regluverk frá rugludalli
Mánudagur 13. apríl 2020 kl. 13:41

Kylfukast: Regluverk frá rugludalli

Golf er ekki flókin íþrótt. Byrjar á upphafsteig. Slærð bolta með þar til gerðum kylfum með það að markmiði að koma boltanum ofan í holu. 

Golf á Íslandi er að mestu leyti stundað af fólki á sextugsaldri og þaðan af eldra til heilsubótar og útivistar. Í fjölda ára hefur golf verið kallað skemmd á góðum göngutúr. Golf er lýðheilsa. Golf er útivist. Golf er félagsskapur. Allt sem við þurfum nú sem aldrei fyrr nauðsynlega á að halda.

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Íslendingar hafa sammælst um að hlýða Víði. Um það gilda nýjar semfélagsreglur um samkomubann.  Handþvottur, sprittun, deila ekki búnaði og umfram allt 2 metra fjarlægð í næsta mann grunnurinn að nýrri tímabundinni samfélagsmynd. Fólk er á þessum furðulegu tímum hvatt til útivistar og hreyfingar. Hestamennska, fjallgöngur, hjólreiðar, fjallaskíði og svo mætti lengi telja.

Það vakti athygli þegar um miðja páska birtast af himnum ofan „Reglur um ástundun golfíþróttarinnar á tímum samkomubanns“. 

Eitt er það að senda út sérstakar reglur um iðkun golfíþróttarinnar umfram þær reglur sem í samfélaginu gilda almennt, en hitt er að reglurnar bera þess merki að vera ritaðar af bjúrókratískum fábjána eða rugludalli sem aldrei hefur stigið inná golfvöll. Átján reglur sem í rauninni þýða að ekki er hægt að leika golf meðan á samkomubanni stendur. 

Reglurnar eru svo vitlausar að það væri óskandi að sá sem þær ritaði myndi stíga fram og lýsa því hvernig þær eru til fundnar. Það hefði verið svo auðvelt að sækja ráðgjöf til golfklúbbanna eða til GSÍ.

Ekki er heimilt að leika golf nema hafa til þess bókaðan rástíma. Rástímarnir fást skv. reglunum á 15 mínútna millibili, en kylfingi er óheimilt að mæta á golfvallarsvæðið fyrr en 10 mínútum áður en rástími hefst. Þetta er illframkvæmanlegt og gæti skapað óþarfa hættu í umferðinni. Efni í annan pistil. Ætli hjón saman í golf verða þau að vera búin að ákveða áður en leikur hefst, hvort þeirra ætlar að nota golfbílinn. Ekki er tekið á því hvort þeim sé heimilt að koma saman á sínum einkabíl á völlinn. Þurfi þessi hjón að fara á salerni áður en leikur hefst, er það guðsgræn náttúran, því golfskálar skulu lokaðir. Engar refjar. Algerlega óháð því að samkomubannið segi að 20 manns megi vera í sama rými. Svo mega þau ekki setjast á bekki á golfvellinum. Óvíst er hvort þau megi setjast yfirhöfuð en líklega má makinn sem ferðast á golfbílnum, sitja í honum.

Holubotnar skulu hækkaðir svo þeir standa uppúr holunum. Þar með er ekki lengur verið að leika golf. Boltinn kemst ekki ofan í holuna. Í nýjum golfreglum R&A var gerð breyting þar sem bolti telst ofan í holu sé aðeins hluti hans neðan við yfirborð flatarinnar. Með því að fylla holuna með sandi eða svampi, nánast upp að brún, má halda fullkomnu gildi leiksins skv. reglum R&A. Það er leitt að bjúrókratinn sem sat í yfirvinnu um páskana við að semja þetta skjal hafi ekki verið betur að sér í reglunum. Hann hefði örugglega getað fengið ráðgjöf hjá GSÍ, þar sem varaforsetinn er með alþjóðleg dómararéttindi og hefur oft verið fenginn til að dæma á stórmótum erlendis.

Þar sem ekki má snerta flaggstöngina samkvæmt reglum rugludallsins - væri best að fjarlægja hana. Þannig mætti leika golf samkvæmt reglunum því engar reglur kveða á um að flaggstöng skuli vera í holunni. Hún er þar eingöngu til hægðarauka svo kylfingar sjái hvar á flötinni holan er staðsett. Að hitta flötina er nægt afrek. Stöngin er óþörf. 

Það hefði verið gott fyrir golfið ef leitað hefði verið ráðgjafar hjá golfklúbbunum eða GSÍ áður en þessar reglur voru samdar og sendar út. Vonum að þær verði felldar úr gildi sem allra fyrst.  

Við skulum öll hlýða Víði og standa saman um að virða reglur um samkomubann. Kynnið ykkur þær vel. Þær verða vonandi rýmkaðar sem fyrst þannig við munum með hækkandi sól njóta glæsilegra golfvalla landsins í sinni bestu mynd. 

Með golfkveðju 

Margeir Vilhjálmsson