Kylfukast

Kylfukast: Fangelsaður fyrir golfiðikun
Þriðjudagur 28. febrúar 2017 kl. 10:00

Kylfukast: Fangelsaður fyrir golfiðikun

Í harðri keppni á golfvellinum hefur oft gerst að menn hafi misst sig. Alvarlegasta atvikið sem ég man eftir er þegar ónefndur kylfingur sendi 9-járn á flugi í bakið á tvíburabróður sínum. Það var á gamla Korpuvellinum. Engir eftirmálar urðu en þetta var á þeim tíma þegar uppgangur golfíþróttarinnar var að hefjast fyrir alvöru.
Einhverjir kylfingar hafa líka átt það til að hætta úti á miðjum velli eftir að hafa bugast á líkama og sál undan golfíþróttinni. Aðallega á sálinni samt. Ótrúlegt hvað þessi litli hvíti bolti getur ruglað mann í hausnum. Þess vegna er gott að geta fengið sér einn kaldan á 19. holunni. Þá gleymist þetta fljótt.

Keppnismenn úr öðrum íþóttagreinum en golfi, aðallega boltaíþróttum, hafa í gegnum tíðina reynt að láta baráttuandann bera sig áfram á brautum vallarins. Oftast með litlum árangri. Innri ró er mikilvægari og keppnisskapið þarf að temja þannig það komi að góðum notum þegar mest á reynir. Þrátt fyrir mörg ævintýri á golfvöllum landsins á síðastliðnum 82 árum gerist það í fyrsta skiptið á árinu 2017 að leikmaður er dæmdur til fangelsisvistar fyrir golfiðkun.

Umræddur leikmaður verður ekki nafngreindur hér í Kylfukasti en hann hafði áttað sig á því sem tekur marga kylfinga allof langan tíma. Búnaðurinn er það sem skiptir höfuðmáli. Að hans mati var Cobra búnaður bestur. Hann var hinsvegar ekki tilbúinn að greiða fullt gjald fyrir að nota slíkan búnað hér á landi. Það vita allir sem stunda golf að ef rangar tölur eru skráðar á skorkortið, þá ertu dæmdur úr leik.

Að þessu sinni var það tollstjóri sjálfur sem greip í taumana. Cobra búnaðurinn var gerður  upptækur. Fylgist vel með næstu uppboðum. Þessi gæðabúnaður gæti verið þinn á komandi leiktímabili.

Það er stutt í golfsumarið þrátt fyrir fannfergi.

Hlakka til.

Með golfkveðju,

Margeir Vilhjálmsson

Nánar um málið:
http://www.ruv.is/frett/dyrkeypt-golfsett-kylfings-a-austurlandi