Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Kylfukast

Kylfukast: Forseti GSÍ segir af sér
Laugardagur 9. janúar 2016 kl. 12:33

Kylfukast: Forseti GSÍ segir af sér

Það er fátt betra en að vakna á morgnana, fá sér einn heitan kaffibolla og lesa blöðin. Það er betri tilfinning að lesa dagblöð en að fletta tölvuskjám. Það finnst okkur gamla liðinu allavega. Því miður fór þessi góða morgunstund út um þúfur þegar ég frussaði kaffinu yfir eldhúsborðið. Sem betur fer var frúin ekki heima. Það tók hálftíma að þurrka innréttinguna og skúra gólfið. 

Það fyrsta sem kom í hugann var: „Það er ekki í lagi með þennan mann“. Auðvitað á maður ekki að hugsa svona, en þegar á forsíðu Fréttablaðsins má lesa orðrétt: „Golfklúbbarnir velta samtals 2 milljörðum. Forseti Golfsambandsins telur unnt að reka íþróttina án opinbers stuðnings“, held ég að mér sé fyrirgefið. Aldrei hef ég orðið eins reiður við lestur forsíðu Fréttablaðsins.

Í mikilli geðshræringu fletti ég að forsíðu Markaðarins, sem er viðskiptablað inni í Fréttablaðinu. Þar blasti við mynd sem ég hélt fyrst að væri af Kim Jong Un, en reyndist þegar betur var að gáð enginn annar en Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ. Ég viðurkenni fúslega að vera með stuttan þráð svo ég taldi það bara góða hugmynd að fá mér koníaksglas með kaffinu í morgunmat bara til að róa taugarnar.
 
Sú staðreynd að helmingur af blaðsíðum Markaðarins þann 6. janúar séu lagðar undir viðtal við Forseta Golfsambandsins kemur svolítið spánskt fyrir sjónir. Annaðhvort hefur verið alger gúrkútíð enda áramótin nýafstaðin eða Golfsambandinu hefur þótt kjörið að hefja árið 2016 með áramótabombu og kaupa eitt stykki drottningarviðtal við forsetann. Ég vona að gúrkutíðin hafi verið ástæðan.  Undirfyrirsagnirnar eru sláandi. 10% Íslendinga spila golf. Heildarvelta golfklúbbanna er 2 milljarðar. Íslenskum atvinnukylfingum mun fjölga á næstu árum. Telur íslenska golfvelli fyllilega samkeppnishæfa.
 
Fyrir þá sem þekkja innviði golfíþróttarinnar er viðtalið opinber blekking. Það er klárlega hægt að fagna því að gríðarleg fjölgun hafi verið í golfíþróttinni undanfarin 15 ár. En ef það er verið að horfa fimmtán ár aftur í tímann, af hverju þá ekki bara að horfa 30 eða 50 ár. Klárlega hefur kylfingum fjölgað frá því árið 1966. Golfklúbbur Reykjavíkur (GR) var þá að bagsa við að byggja best heppnaða golfskála á Íslandi og var nær gjaldþrota. Nú veltir GR tæplega 400 milljónum af þeim tveimur milljörðum sem golfklúbbarnir á landinu velta. Hinir klúbbarnir á höfuðborgarsvæðinu GK, GO, GKG og NK velta öðrum 700 milljónum. Eftir eru þá 900 milljónir sem skiptast á 60 golfklúbba og meðaltalsvelta þeirra því um 15 milljónir á ári. Þær 15 milljónir dygðu ekki fyrir mánaðarrekstri GR. Íslenskir golfklúbbar eru almennt reknir af miklum vanefnum og væri ómögulegt að halda úti aðstöðu þeirra ef ekki væri fyrir mikla og óeigingjarna sjálfboðavinnu fjölda félagsmanna.
 
Í dag berjast golfklúbbar við fækkun félagsmanna og samkeppni frá íþróttum og afþreyingu sem þekktist vart hér á landi fyrir 15 árum síðan. Þróunin á síðustu 15 árum hefur verið mjög jákvæð, en þróunin á síðustu þremur árum er frekar neikvæð. Rekstrarvandi er fyrirsjáanlegur hjá mörgum golfklúbbum landsins  verði ekki breyting á. Sá rekstrarvandi verður ekki leystur nema með aðkomu opinberra aðila, þ.e. sveitarfélaganna.
 
Í fáum íþróttagreinum leggja iðkendur jafn mikið til reksturs mannvirkjanna og gert er í golfi. Sundiðkendur þurfa ekki að reka sundlaugarnar. Knattspyrnumenn þurfa ekki að reka vellina eða knatthúsin. Handbolta- og körfuknattleiksiðkendur þurfa ekki að sjá um rekstur íþróttahúsanna. Golf er næst fjölmennasta íþróttagrein landsins og þar halda félagsmenn golfklúbbanna uppi rekstri mannvirkjanna að lang mestu leyti. Rekstrarstyrkir sveitarfélaganna eru fátæklegir og þar má gjarnan bæta í en vonlaust væri að halda úti rekstri margra golfklúbba án þeirra.
 
Golf hefur notið velvildar eins og aðrar íþróttagreinar þegar kemur að uppbyggingu íþróttamannvirkja. Garðbær og Kópavogur eru að leggja til ríflega 400 milljónir til uppbyggingar glæsilegustu golfíþróttamiðstöðvar landsins. Mosfellsbær er að styðja golfklúbbinn þar í bæ til sambærilegrar uppbyggingar. Akureyri hefur af miklum myndarbrag staðið á bakvið uppbyggingu á Jaðri undanfarin ár og nú standa yfir framkvæmdir við glæsilegt æfingasvæði. Hafnarfjarðarbær hefur myndarlega stutt við uppbyggingu Hraunkots og nú við breytingar á Hvaleyrarvelli. Reykjavíkurvíkurborg hefur á síðastliðnum 20 árum lagt GR til hundruðir milljóna til uppbyggingar Korpúlfsstaðavallar, Bása og viðhalds Grafarholtsvallar. Fjöldi annarra sveitarfélaga hafa stutt við uppbyggingu golfmannvirkja á sínum svæðum. Golfvellir eru landfrekir og rétt er að benda á að ef flestir golfklúbbar landsins hefðu ekki fengið landsvæðum úthlutað án endurgjalds þá myndum við líkast til telja golfiðkendur í hundruðum en ekki þúsundum. Fyrir allt þetta ber að þakka.
 
Sú staðreynd að æðsti maður golfhreyfingarinnar á Íslandi hafi hvorki betri sýn, skynbragð né skilning á íþróttinni en raun ber vitni í téðu viðtali er í besta falli sorgleg. Þetta viðtal ætti að mínu mati ekki að túlka sem neitt annað en opinbert uppsagnarbréf, en svo verður nú líkast til ekki.
 
Við golfklúbbana á Íslandi er því ekki hægt að segja annað en: „Þykir það leitt, en þið kusuð hann“.
 
 
Gleðilegt nýtt golfár.
 
Margeir Vilhjálmsson.