Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Kylfukast

Kylfukast: Leitað á röngum stað
Föstudagur 11. ágúst 2017 kl. 15:18

Kylfukast: Leitað á röngum stað

Reglulega eru birtar á íslenskum golfmiðlum greinar um ágæti þess að stytta hinn hefðbundna golfhring úr 18 holum og í eitthvað. Bara alls ekki 12, 9 eða 6. Helst hafa hringinn bara af einhverri lengd svo hugmyndafræðin falli að því sem eini starfandi íslenski golfvallahönnuðurinn lýsir á hinni ágætu síðu „Af hverju átján holur“.

Nýlega var fjallað um málið á enskum vefmiðli þar sem menn velta fyrir sér hvað mögulega sé hægt að gera til þess að draga unga fólkið að golfinu. Sitt sýnist hverjum, en ekki kemur á óvart að golfvallahönnuðum ber saman um að æskilegt væri að stytta golfhringinn. Sú skoðun hentar þeirra starfsgrein best og myndi tryggja fleiri verkefni fyrir golfvallahönnuði til framtíðar. Þeir sem framleiða búnað fyrir golfara og golfvelli eru hrifnir af því að stækka holurnar, breyta kylfunum eða tæknivæða leikinn meira þannig að þeirra geiri beri sem mest úr býtum. Byggja tjöld fyrir æfingasvæði þannig að golfæfingasvæði (e. Driving range) verði lítið annað en blokkir af sambyggðum golfhermum. Allt réttlætt með minni landnotkun. Meðan þátttakan í golfinu dregst saman, þá fjölgar áhorfendum á stórmótum. Tvö aðsóknarmet hafa verið sett á þessu ári. Annað á bandarísku mótaröðinni og svo á Opna mótinu sem haldið var á Royal Birkdale í síðastliðnum mánuði.

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Meðan framámenn í golfíþróttinni klóra sér í hausnum yfir því hverju sé hægt að breyta á golfvöllunum til að auka leikhraða og þannig draga fleiri iðkendur að íþróttinni læðist að manni sá grunur að þeir ágætu menn séu að leita á röngum stað. Á þessu ári hef ég rætt við fjölda ungs fólks sem er prufa sig áfram í golfinu. Þau leita á litlu vellina eins og Grafarkot í Grafarholti, Jóelinn í Leirunni, Ljúflinginn á Oddi og hina ýmsu „sveitavelli“ þar sem endurgjaldið fyrir leikinn hring er lágt. Það er ekki skrýtið. Þetta er kynslóð sem alist hefur upp við það að greiða ekki fyrir það sem kynslóðunum á undan þótti sjálfsagt að greiða fyrir. Kaupa ekki plötur eða geisladiska. Þeim er hlaðið niður af netinu. Eru ekki áskrifendur af Mogganum. Lesa bara mbl.is. Eru ekki áskrifendur af Stöð 2 fyrir 25.000 kr.á mánuði, kjósa frekar Netflix á 1.000 kr.á mánuði. Það verður því ekki sagt að þau séu ekki tilbúin að borga neitt, þau vilja bara borga minna fyrir gæði sem okkur „gamla“ liðinu þykir sjálfsagt að borga vel fyrir.

Forkólfar golfíþróttarinnar líta eingöngu innávið og sitja sveittir við að finna leiðir til að eyðileggja annars frábæra íþrótt meðan nær væri að líta útávið og finna leiðina sem dregur áhugasama golfara á aldrinum 20- 40 ára inn í golfklúbbana.

Tvær leiðir er vert að skoða í þessu máli: Að lækka félagsgjöld til muna og taka svo gjald fyrir hvern leikinn hring. Fyrst var skrifað Kylfukast um þessa leið fyrir nokkrum árum undir fyrirsögninni: Þeir borgi mest sem nota mest. Hin leiðin er sú að fjölga til muna litlum einföldum golfvöllum eins og er að finna á Ásbrú í Reykjanesbæ. Allur völlurinn er í einni sláttuhæð. Teigur á öðrum enda brautarinnar og hola með flaggi á hinum. Golf útgáfa af sparkvelli. Alger snilld. Það vill svo vel til að í haust er Golfþing. Fjör framundan.

Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson