Kylfukast

Kylfukast: Listin að kunna að tapa!
Fimmtudagur 28. júlí 2016 kl. 00:18

Kylfukast: Listin að kunna að tapa!

Eitt það fyrsta sem ég lærði um golf var að það væri heiðursmannaíþrótt. Kylfingurinn er ekki bara að keppa við andstæðing eða andstæðinga heldur líka við völlinn og síðast en ekki síst sjálfan sig.
 
Hver man ekki eftir golfslagorði Toyota um síðustu aldamót: „Sigraðu sjálfan þig“.
 
En golf eins og aðrar íþróttir getur verið óheyrilega grimmt. Það er ekki á vísan að róa með sigur. Jafnvel þótt þín eigin frammistaða fari í sögubækurnar þá getur verið annar leikmaður á vellinum, jafnvel í sama ráshópi gert ennþá betur.
 
Í Opna mótinu sýndi Phil Mickelson ótrúlega spilamennsku. Hann fékk sex fugla og engan skolla. 65 högg dugðu ekki til, þar sem Henrik Stenson fékk 10 fugla og 2 skolla. Gerði betur og vann sitt fyrsta risamót. Að leik loknum viðurkenndi Phil fúslega að vera mjög svekktur, enda mikill keppnismaður. Samt sem áður var hann mjög ánægður með eigin spilamennsku. Það hefði einfaldlega verið við ofurefli að etja. Hann samgladdist og hrósaði Henrik Stenson fyrir frábæra spilamennsku. Óskaði honum til hamingju með sigurinn og glæsilega frammistöðu.
 
Golf alveg uppá 10. Þvílík skemmtun, þvílíkir leikmenn. Fylla mann stolti og gleði.
 
Í síðasta Kylfukasti fjallaði ég um að Íslandsmótið í golfi væri golfsýning. Það kom berlega í ljós í hreint ágætri sjónvarpsútsendingu á RÚV. Þar fengum við að sjá íslenska útgáfu af einvígi Phil og Henriks. Brotið blað í sögu golfs á Íslandi.
 
Það hefur sótt mjög á mig hvað hefði gerst í golfheiminum að loknu Opna mótinu ef Phil hefði sagt að leik loknum: „Hvað átti ég að gera? Það fór allt í hjá honum þegar hann komst inn á flöt, en ekkert hjá mér. Ég er brjálaður.“ Engar hamingjuóskir til Henriks, ekki neitt. Það hefði óneitanlega sett annan blæ á mótslokin á Royal Troon.
 
Ég er viss um að Phil Mickelson hefði séð að sér og beðist afsökunar á ummælum sínum í hita leiksins, í stað þess að draga Butch Harmon með sér út í vatnstorfæruna og réttlæta gjörninginn.
 
Phil er atvinnumaður í golfi.
 
Með golfkveðju,
 
Margeir Vilhjálmsson