Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Kylfukast

Kylfukast: Takk Ólafía!
Sunnudagur 4. desember 2016 kl. 23:06

Kylfukast: Takk Ólafía!

Árið er 2006. Við stöndum tveir á hólnum og fylgjumst með unglingamóti í golfi. „Maddi, ég er að segja þér að þessi stelpa á eftir að fara alla leið“. Í huga okkar beggja þýddi „alla leið“ það sama. Atvinnumaður á mótaröð þeirra bestu. Hún var ekki beint af augum sú besta þá en þessi ágæti maður var viss í sinni sök. Vildi meina að ákveðin grunnatriði væru það góð í sveiflunni að hún ætti mesta möguleika til framtíðar.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar. Íslenskt afreksgolf hefur tekið stakkaskiptum og við eigum fjölda kylfinga sem koma til með að banka á dyrnar fyrir alvöru á mótaröðum þeirra bestu í heiminum.

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Ef einhver hefði haldið því fram fyrir 10 árum að á árinu 2016 fengi íslenskur kvenkylfingur meiri athygli hér á landi en sjálfur Tiger Woods hefði ég sagt: „Gleymdu því. Farðu og taktu pillurnar þínar“.

Til hamingju og takk kærlega Ólafía Þórunn fyrir frábæra skemmtun, ekki bara núna um helgina, heldur bara allt frá þessum -11 á Íslandsmótinu í golfi á Akureyri, úrtökumótin og Abu Dhabi ævintýrið. Þessi vegferð þín núna í haust hefur sýnt betur en nokkuð annað hversu gríðarlega miklu það skiptir fyrir íþróttagreinar á Íslandi að eiga afreksmenn í fremstu röð í heiminum.

Öðrum verður eftirlátið að rífast um hver eigi skilið titilinn Íþróttamaður ársins þetta árið.  Úr miklu er að velja en fyrir fáeinum árum var það draumsýn að Ísland ætti kylfing á bandarísku mótaröðinni. Sá draumur er nú veruleiki og það með glæsibrag.

Ef Brynjar Eldon Geirsson segir ykkur eitthvað um golf, þá er alveg þess virði að hlusta. Það rætist kannski ekki alveg strax, en gefið því 10 ár.

Með golfkveðju og innilegum hamingjuóskum til allra golfara.

Margeir Vilhjálmsson.