Örnninn er lentur
Örnninn er lentur

Viðtal

Svarfhólsvöllur verður 18 holur 2026
Þrjár nýju brautirnar á Svarfhólfsvelli lofa góðu. Hér er mynd af annari holu sem verður 18. holan þegar völlurinn verður full kláraður. Mynd/kylfingur.is
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 19. ágúst 2022 kl. 15:47

Svarfhólsvöllur verður 18 holur 2026

Framkvæmdir við breytingar á vellinum ganga mjög vel. Jarðvegur úr nýja miðbænum nýtast við brautargerð.

„Þrjár fyrstu nýju brautirnar koma vel út og markmiðið er að vinna þrjár til fjórar brautir í einu og ef allt gengur vel verðum við komin með 18 holu völl árið 2026,“ segir Hlynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Selfoss.

Edwin Roald, golfvallahönnuður hefur undanfarin misseri unnið að hönnun og breytingum á Svarfhólsvelli á Selfossi í kjölfar þess að ákveðið var að nýr kafli á þjóðvegi norður fyrir Selfoss mun fara yfir hluta golfvallarsvæðisins. Hann klippir af tvær eldri brautir og hefur áhrif á þrjár. Golfklúbburinn gerði samning við sveitarfélagið Árborg um meira landrými á Svarfhóli til að gera nýjar brautir og stækka völlinn. 

„Það er þannig með marga velli sem eru níu holur að það er oft horft til þess að stækka þá, oftast upp í átján holur. Klúbburinn vill það en til þess þarf hann að njóta stuðnings hjá sínu sveitarfélagi eins og önnur íþróttafélög með íþróttamannvirki. Ekki síst í þessu tilfelli, því að klúbburinn leggur áherslu á að þetta verði ekki bara golfvöllur, heldur að nýr, breyttur og stækkaður völlur verði einnig fjölnota, alhliða útivistarsvæði. Það hljómar kannski einkennilega í eyrum margra því við erum vön því að sjá þessar skýru línur, golfvöll hér, útivist þarna, fótbolta þarna, hestamennsku hér. Það eru til góð dæmi, aðallega á Norðurlöndunum og annars staðar á landinu, um vel heppnaða svona blöndu, jafnvel með reiðgötum, stígum til göngu, hjólreiða eða hlaups, fuglaskoðun o.fl. Þetta viljum við gera,“ segir Edwin.

Séð inn eftir fyrstu brautinni sem er ein af þessum nýju.

Við gerð nýrra brauta hefur verið notaður jarðvegur úr húsgrunnum og gatnagerð, m.a. úr nýja miðbænum á Selfossi. Hann hefur einnig verið nýttur til landmótunar sem verður hluti af golfvellinum og útivistarsvæðinu, til fegrunar. Framtíðarsýnin hjá golfklúbbnum er stórglæsilegur golfvöllur og útivistarsvæði. 

„Ef stuðningur fæst, fjárhagslegur og á aðra lund, frá sveitarfélaginu og jafnvel fleirum, til að stækka völlinn umfram þetta, þá sjáum við möguleika á því að vinna í þriggja til fjögurra brauta áföngum á tveggja ára fresti þ.e.a.s. 2023 og 2025 og svo yrðu í lokin væntanlega tvær holur sem lifa eftir. Þær gætu þá verið teknar í notkun 2027. Auðvitað eru öll svona plön langt fram í tímann dálitið viðkvæm, en þetta er hugmyndin,“ segir Edwin.

Hlynur Geir segir að starfsemin í sumar hafi gengið vel. Heimamenn stundi íþróttina vel og þá hafi fjölmargir gestir komið og leikið Svarfhólsvöll. Almenn ánægja sé með nýjar brautir og framtíðarsýnina á svæðinu og framkvæmdir gangi vel. „Í ljósi þess hvað framkvæmdir ganga vel þá er stefnan að opna 14 holu völl ásamt par 3 holu velli árið 2024. Svo er markmið okkar í GOS að völlurinn verði orðinn 18 holur, grænn og fallegur, þegar ný brú opnar 2026,“ sagði Hlynur Geir.

 „Það er þannig með marga velli sem eru níu holur að það er oft horft til þess að stækka þá, oftast upp í átján holur. Klúbburinn vill það en til þess þarf hann að njóta stuðnings hjá sínu sveitarfélagi“

Púttað á fyrstu flötinni.

Þriðja brautin er líka ein af þessum nýju.

Fjórða holan er par skemmtileg par 3. Kylfingar heyra niðinn úr Ölfusánni.

Fimmta brautin er par 5. 

Slegið af níunda teig.