Fréttir

Aðalfundur GR: 104 milljóna króna hagnaður
Jóhanna Lea og Björn Víglundsson formaður GR. Mynd: grgolf.is
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 6. desember 2019 kl. 18:12

Aðalfundur GR: 104 milljóna króna hagnaður

Aðalfundur Golfklúbbs Reykjavíkur var haldinn á fimmtudaginn og fór fundurinn fram á Korpúlfsstöðum.

Björn Víglundsson situr áfram sem formaður og hefur nú sitt sjötta starfsár sem slíkur. Tveir fulltrúar komu nýir inn í varastjórn, þau Gísli Guðni Hall og Þórey Jónsdóttir.

Á árinu varð 24% aukning í leiknum hringjum á völlum GR frá fyrra ári og má tengja þessa miklu aukningu við hið góða veðurfar sem Íslendingar fengu að njóta.

Korpa 9 holur – 39.121 hringir samanborið við 33.938 á árinu 2018
Korpa 18 holur – 37.529 hringir samanborið við 31.044 á árinu 2018
Grafarholt – 39.006 hringir samanborið við 28.280 á árinu 2018

Hagnaður á starfsárinu var 104 millj. kr. en til samanburðar varð hagnaður árið á undan 78 millj. kr. Tekjur námu alls 512 millj. kr. samanborið við 458 millj. kr. á árinu 2018.

Fjárhagsáætlun félagsins var samþykkt á aðalfundi og voru félagsgjöld ársins 2020 lögð á en þau hækka um 3,5% á milli ára.

Á fundinum hlaut Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir Háttvísisbikarinn frá GSÍ sem er á hverju ári veittur þeim kylfingi undir 18 ára aldri sem endurspeglar hvað mest þá eiginleika sem GR-ingar vilja sjá í afrseksunglingum sínum.

Á heimasíðu GR-inga kemur eftirfarandi fram:

„Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir hlaut viðurkenninguna í ár og fékk bikarinn afhentan á aðalfundi sem fram fór í gær. Jóhanna Lea er mikil og sterk fyrirmynd fyrir aðra iðkendur, hún er mjög dugleg við æfingar og hefur sýnt jafnar og góðar framfarir undanfarin ár. Á árinu varð Jóhanna Íslandsmeistari í holukeppni og Íslandsmeistari í höggleik í stúlknaflokki 17-18 ára ásamt því að tryggja sér stigameistaratitil á Íslandsbankamótaröðinni í lok keppnistímabilsins 2019.“

Nánar á grgolf.is