Fréttir

Guðrún gaf eftir á þriðja hring | Staðan engu að síður góð fyrir tvo síðustu hringina
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 24. janúar 2020 kl. 13:52

Guðrún gaf eftir á þriðja hring | Staðan engu að síður góð fyrir tvo síðustu hringina

Þriðji hringur lokastigs úrtökumóts fyrir Evrópumótaröð kvenna var leikinn í dag en Guðrún Brá Björgvinsdóttir er á meðal keppenda. Þrátt fyrir erfiðan dag er Guðrún enn í góðum málum fyrir síðustu tvo hringina.

Guðrún lék á Norður-vellinum í dag en leikið er á tveimur völlum. Hún hóf leik á 1. holu og var komin á þrjú högg yfir par eftir fimm holur, þar sem hún fékk skolla og skramba á holum fjögur og fimm. Eftir það fékk Guðrún aðeins pör og kom hún því í hús á 74 höggum, eða þremur höggum yfir pari.

Eftir daginn er Guðrún á samtals einu höggi yfir pari og er hún jöfn í 14. sæti. Á morgun leikur Guðrún á Suður-vellinum og eftir morgundaginn komast 60 efstu kylfingarnir áfram á lokadaginn. Stutt er í efstu konur en eftir daginn í dag er Alice Hewson efst á samtals þremur höggum undir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.

Leiknir verða fimm hringir og er niðurskurður eftir fjóra. Af 120 kylfingum sem hófu leik eru 60 sem komast áfram eftir fjóra hringi. Efstu fimm konurnar að loknum fimm hringjum fá þátttökurétt sem kallast 5c á Evrópumótaröð kvenna. Kylfingar sem enda svo í sætum 6-20 fá þátttökurétt sem kallast 8a. Kylfingar sem enda síðan í sætum 21-60 fá þátttökurétt 9b. Að lokum fá kylfingar sem komast ekki í gegnum niðurskurðinn þátttökurétt 12a.