Fréttir

Rose horfir einungis á lokaholurnar í sjónvarpinu
Justin Rose.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 22. janúar 2020 kl. 22:49

Rose horfir einungis á lokaholurnar í sjónvarpinu

Það er misjafnt hversu miklum tíma bestu kylfingar heims verja í að fylgjast með keppnisgolfi þegar þeir eru ekki sjálfir að spila. Sem dæmi segist besti kylfingur heims, Brooks Koepka, ekki fylgjast með golfi en aðrir eins og Charles Howell III fá ekki nóg.

Justin Rose er væntanlega einhvers staðar þarna á milli en á blaðamannafundi á dögunum greindi hann frá því að hann hefði fylgst með Forsetabikarnum í sjónvarpinu þegar Bandaríkjamenn höfðu betur gegn Alþjóðaliðinu.

„Ég þekki þessa stráka svo vel, ég horfi á þetta sem keppinautur,“ sagði Rose. „Ég horfi vegna þess að það er áhugavert að sjá hvaða kylfingar setja niður púttin þegar mest er undir.“

Þegar Rose er ekki að keppa horfir hann vanalega á lokaholurnar á mótum helgarinnar. Ástæðan er einföld.

„Þá get ég lært eitthvað um strákana sem ég keppi við. Það er gaman að sjá hvernig þeir höndla pressuna, klárlega. Svo fylgist maður einnig með hverjir spila saman og hverjum líður vel saman og hverju maður getur átt von á í framtíðinni.“

Justin Rose hefur titil að verja á Farmers Insurance Open mótinu sem hefst á fimmtudaginn á PGA mótaröðinni í golfi.