„Markmiðið hlýtur að vera að vinna Íslandsmótið í Eyjum og stigakeppnina í haust“
Sigurður Bjarki Blumenstein úr GR, nýkrýndur Íslandsmeistari í holukeppni um Íslandsmótið í holukeppni, markmiðin og framtíðina.
Sigurður Bjarki Blumenstein úr GR varð á dögunum Íslandsmeistari í holukeppni en leikið var á Hlíðavelli Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Þetta var fyrsti sigur Sigurðar Bjarka á GSÍ mótaröðinni en hann verður 21 árs í haust.
Hann gaf tóninn strax í fyrsta leik í riðlakeppninni er hann fékk fugl á fyrstu fjórum holunum gegn Arnóri Inga Finnbjörnssyni, félaga sínum úr GR. Þannig var Sigurður Bjarki kominn 4 upp. Hann hélt þeirri stöðu fram á 9. holu þegar Arnór náði einni til baka með góðum fugli. Fuglar hjá Arnóri á 13. og 15. holu opnuðu leikinn upp á gátt og Sigurður var aðeins 1 upp þegar 3 holur voru eftir.
Sigurður kom sér í þægilegri stöðu, 2 upp, þegar hann fékk fugl á 16. braut á meðan Arnór fékk par. Fugl á 17. brautinni tryggði svo sigur hans, 3&1.
Sigurður Bjarki sagði í samtali við kylfing.is að hann hafi leikið langbest gegn Arnóri þar sem hann vissi hvað þyrfti til að vinna hann.
„Arnór hefur unnið þetta áður og við fórum saman í gegnum undirbúninginn fyrir mót. Hann var að spila virkilega vel og ég vissi að ég þyrfti að leika á mjög góðu skori til að vinna hann. Ég kom mér í góða stöðu með því að byrja vel en hann náði þessu niður með fullt af fuglum og gerði þetta spennandi í lokin. Það var mjög erfitt að keppa við hann. Hann hætti aldrei að reyna en á endanum seiglaði ég þessu.“
Í öðrum leiknum gegn Guðmundi Rúnari Hallgrímssyni úr GS var Sigurður Bjarki í góðri stöðu, 3 upp, eftir fyrri níu holurnar. Guðmundur setti mikla pressu á Sigurð á seinni níu holunum en Suðurnesjamaðurinn paraði þær allar á meðan GR-ingurinn tapaði höggi hér og þar.
„Allt í einu kom hávaðarok. Guðmundur Rúnar spilaði frábærlega við þær aðstæður, hann missti ekki braut og lék mjög flott golf. Hann er greinilega vanur því að spila í roki og það var magnað að fylgjast með honum slá þessi lágu högg undir vindinn. Hann náði að jafna leikinn og gerði það vel.“
Síðasti leikur Sigurðar í riðlinum var gegn Andra Má Óskarssyni úr GOS. Leikurinn var í jafnvægi framan af og skiptust þeir á að vera í forystu. Andra Má fataðist flugið á lokaholunum og gaf leikinn áður en yfir lauk.
Í 8 manna úrslitum mætti Sigurður Bjarki félaga sínum úr GR, Viktori Inga Einarssyni. Hann vann fyrstu holuna en Viktor jafnaði við hann á þeirri fjórðu og komst svo 1 upp á 5. holu. Sigurður Bjarki jafnaði við Viktor á 6. braut og var kominn 2 upp eftir fyrri níu holurnar.
„Viktor var búinn að spila mjög vel fyrir þennan leik og var nýbúinn að sigra Sverri Haraldsson í bráðabana. Eftir 7. holu var ég kominn 1 upp og Viktor byrjaði aðeins að ströggla. Það var mikill vindur svo markmiðið hjá mér og kylfusveininum, Kjartani Sigurjóni vini mínum, var bara að fá pör þar sem við vissum að það myndi duga. Það leikskipulag gekk upp og ég vann leikinn,“ segir Sigurður.
Í undanúrslitum mætti Sigurður Bjarki tvöföldum Íslandsmeistara í holukeppni, heimamanninum Kristjáni Þór Einarssyni. Hann náði forystu á 2. holu og lét hana ekki af hendi fyrr en á 16. braut þegar Kristján Þór náði að jafna. Það var svo á 18. holunni sem úrslitin réðust þegar Sigurður Bjarki fékk fugl.
„Á seinni níu holunum setti Kristján niður mörg góð pútt sem héldu honum inni í leiknum. Á 18. holunni sló Kristján fyrst og átti u.þ.b. 15 metra eftir sem hann hefur líklega ekki verið sáttur við. Ég ákvað þá að fara beint á pinna því ég vildi alls ekki bráðabana. Ég átti 4 metra pútt eftir. Kristján náði að tryggja parið svo ég og kylfusveinninn minn, Jóhannes Guðmundsson, lásum línuna mjög vandlega en púttið var mjög erfitt. Ég stóð yfir boltanum og treysti línunni. Ég var búinn að vera stuttur í púttunum allan daginn svo ég gaf aðeins meira í þetta pútt en ég hefði annars gert og það fór ofan í og ég fagnaði vel.“
Í sjálfum úrslitaleiknum mættust þeir Sigurður Bjarki og Kristófer Orri Þórðarson úr GKG. Sigurður Bjarki komst 1 upp á 2. braut en Kristófer jafnaði við hann á 5. braut. Þeir skiptust á að vinna næstu holur þar til sú 11. féll en þá var Sigurður Bjarki 1 upp. Á 12. holu fékk Kristófer Orri fugl en Sigurður Bjarki örn og var kominn 2 upp. Kristófer kom til baka á 13. braut en tapaði höggi á þeirri 15. og hleypti Sigurði aftur 2 upp.
„Mér leið fyrst eins og ég væri með hann eftir 15. holu. Hann setti hann í einhverja 10 metra, sem var mjög fínt högg og ég slæ mjög lélegt högg sem hafnar 30 metra frá pinna utan flatar. Ég vippa svo í 4 metra og hann púttar og á rúman metra eftir í holu. Ég set púttið mitt í og hann missir sitt og þá var þetta orðið mjög erfitt eftir það. Hann púttaði rosalega vel og mér leið eins og allt myndi fara niður hjá honum.“
Þeir pöruðu báðir 16. og 17. braut og Sigurður Bjarki gat fagnað Íslandsmeistaratitlinum í holukeppni og sínum fyrsta sigri á mótaröðinni.
„Ég áttaði mig ekki á því að ég væri orðinn Íslandsmeistari í holukeppni fyrr en að nokkur stund var liðin frá því að ég tryggði mér sigurinn. Ég var búinn að búa mig undir að leika 18. holuna þegar Kristófer missti púttið á 17. holu og ég rankaði eiginlega ekki við mér fyrr en ég var búinn að knúsa alla og áttaði mig á að titillinn væri minn.“

Sannarlega glæsilegur sigur hjá Sigurði Bjarka.
Sigurður segir að sér finnist fyrirkomulag holukeppninnar henta sér mjög vel því hann geti leyft sér að reyna að sækja fleiri fugla. Þá líkar honum að spila maður á mann sem dregur fram keppnisskapið í honum og hann gerir allt til að vinna andstæðinginn.
En hver eru markmiðin hjá Sigurði Bjarka?
„Mig langar að komast í liðið sem fer á Evrópumótið í júlí og svo leggjum við í GR áherslu á að vinna sveitakeppnina annað árið í röð. Markmiðið hlýtur svo að vera að vinna Íslandsmótið í Eyjum og stigakeppnina í haust,“ segir Sigurður.
Sigurður Bjarki stundar nám við James Madison háskólann í Virginíu og leikur í háskólagolfinu samhliða. Hann lauk við annað árið af fjórum í vor.
Er hann með atvinnudrauminn í maganum?
„Það er svolítið erfitt að svara því núna. Skólinn gengur fyrir eins og stendur en já, mér finnst ég geta orðið atvinnumaður. Fyrir mig væri frábært að komast inn á annað hvort Áskorendamótaröð Evrópu eða Korn Ferry mótaröðina í Bandaríkjunum og að komast inn á Evrópumótaröðina væri auðvitað stórkostlegt,“ segir Sigurður Bjarki Blumenstein nýkrýndur Íslandsmeistari í holukeppni að lokum.