Fréttir

15 högga sveifla hjá Harding
Justin Harding hefur sigrað á einu móti á Evrópumótaröð karla.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 9. október 2020 kl. 16:24

15 högga sveifla hjá Harding

Suður-Afríkubúinn Justin Harding er úr leik eftir tvo hringi á BMW meistaramótinu sem fer fram á Evrópumótaröð karla í golfi um þessar mundir. Það eitt og sér hefði vanalega ekki ratað í fréttirnar en í ljósi þess að Harding var í forystu í mótinu eftir fyrsta keppnisdaginn vekur það athygli.

Harding lék óaðfinnanlega á fyrsta keppnisdeginum en hann fékk sex fugla, tapaði ekki höggi og kom inn á 66 höggum. Harding var þá jafn þeim Tyrrell Hatton og Adri Arnaus í forystu af þeim 120 kylfingum sem hófu leik á Wentworth vellinum.

Í dag var nánast eins og annar kylfingur hefði mætt til leiks því Harding fékk einungis tvo fugla, sex skolla, einn tvöfaldan skolla og annan þrefaldan skolla á hring dagsins og kom inn á 81 höggi, 15 höggum verr en daginn áður.


Skorkort Harding á BMW meistaramótinu.

Nú þegar flestir kylfingar hafa lokið leik á öðrum keppnisdegi er orðið ljóst að Harding komist ekki í gegnum niðurskurðinn en hann er þessa stundina þremur höggum frá niðurskurðarlínuna sem miðast við kylfinga á pari eða betra skori.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.