Fréttir

9 ára fór holu í höggi á Álftanesvelli
Óliver hæstánægður með draumahöggið.
Föstudagur 10. maí 2019 kl. 16:23

9 ára fór holu í höggi á Álftanesvelli

Hinn 9 ára gamli Óliver Elí Björnsson, sem er meðlimur í Golfklúbbi Álftaness, gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 7. holu Álftanesvallar á dögunum.

Að sögn Björns Halldórssonar, föður hans, var strákurinn ungi að leika sinn fjórða hring þann daginn þegar hann sló hið fullkomna högg á 7. holu sem spilaðist 113 metrar af rauðum teigum.

Óliver notaði dræver í höggið sem rúllaði beint í holu. Mikil spenna greip um sig í hollinu því einn spilafélagi hans þóttist sjá boltann enda í holuni. Sá hinn sami var þá sendur með hendur fyrir aftan bak til að staðfesta afrekið. Fyrr um daginn hafði Óliver verið hársbreidd frá því að fara holu í höggi á 2. holu vallarins svo þetta lá hreinlega í loftinu. 

Óliver eyðir flestum stundum á golfvellinum á milli skóla og fótboltaæfinga og er gaman að geta þess að hann er mikill markaskorari í 6. flokki karla á Álftanesi. Hann stefnir að því að bæta sig í golfi í sumar en helstu styrkleikarnir hans eru að eigin sögn dræverinn en púttin ætlar hann að æfa stíft í sumar.

Ísak Jasonarson
[email protected]