Harrington vann í þriðja sinn á árinu - „tekur á því“ í drævunum
Írarnir eru heitir þessa dagana og Patraig Harrington, þrefaldur risameistari sem fékk þátttökurétt á Champions mótaröð eldri kylfinga í Bandaríkjunum í upphafi árs, sigraði í þriðja sinn á keppnistíðinni þegar hann vann Axcension Charity Classic mótið í St. Louis í Bandaríkjunum sem lauk á sunnudag. Það fóru því tveir titlar til Írlands þennan dag því félagi hans Lowrie vann BMW mótið á Wentworth í Englandi.
Harrington hefur leikið fanta vel á árinu. Þrátt fyrir að hafa fagnað fimmtugsaldri hefur hann lengt sig í upphafshöggunum með „dræver“ og tekur vel á í sveiflunni eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði frá lokahring kappans.
Það eru stór nöfn að keppa á Champions mótaröð eldri kylfinga. Í þessu móti fékk Harrington harða keppni frá Steve Stricker en þeir stýrðu einmitt sitt hvoru liðinu í Ryder bikarnum síðast. Bernhard Langer er sigursælasti kylfingurinn á þessari mótaröð, var að verða 65 ára og er iðulega í toppbaráttunni. Hann fagnaði því með því að leika á „aldrinum“ eða 65 höggum í mótinu. Ernie Els frá S-Afríku var fjórum höggum á eftir Harrington og er einn af stóru kylfingunum sem gerði það gott á árum áður.