Fréttir

Að gæða íþróttina nýju lífi eða kljúfa í herðar niður?
Phil Mickelson og Dustin Johnson hafa skrifað undir samninga við LIV Golf sem nema gríðarlegum fjárhæðum
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
laugardaginn 2. júlí 2022 kl. 15:24

Að gæða íþróttina nýju lífi eða kljúfa í herðar niður?

LIV Golf Invitational mótaröðin heldur áfram. Ítarleg umfjöllun um mótaröðina og allt sem henni fylgir.

Annað mótið á LIV Golf Invitational mótaröðinni (LIV Golf) hófst í gærkvöld á Pumpkin Ridge vellinum í Portland. Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum kylfingi að landslagið í golfheiminum er að breytast með tilkomu mótaraðarinnar sem hófst á Centurion vellinum í London fyrr í þessum mánuði. Hvað sem fólki kann að finnast um LIV Golf þá er ljóst að áhrif mótaraðarinnar eru mikil.

Mótafyrirkomulagið myndi einhver segja að væri nýtt og ferskt en leiknir eru þrír 18 holu hringir á jafn mörgum dögum þar sem ræst er út samtímis á öllum teigum. Þá er einnig keppt í liðakeppni þar sem skipaðir fyrirliðar liðanna velja sér liðsfélaga fyrir hvert og eitt mót. Í liðakeppninni gilda bestu tvö skorin innan hvers liðs á fyrstu tveimur hringjunum en bestu þrjú skorin á lokahringnum. Liðin á LIV Golf eru 12 talsins og fjórir kylfingar mynda hvert lið. Þannig eru einnig 48 kylfingar í einstaklingskeppninni.

Mótin á LIV Golf í ár verða sjö talsins auk lokamóts þar sem úrslit munu ráðast í liðakeppninni. Á næsta ári munu mótin verða 10 talsins og 14 talsins árin 2024 og 2025. Greg Norman, forstjóri LIV Golf, hefur sagt að fjármögnun sé nú þegar tryggð upp á 2 milljarða Bandaríkjadala fyrir næstu þrjú keppnistímabil. Hann segir að aðstandendur LIV Golf sjái mótaröðina fyrir sér lifa góðu lífi í mörg ár og áratugi.

Auk mótanna á Centurion í London og Pumpkin Ridge í Portland verður leikið á Trump National vellinum í New Jersey, á The International í Boston, á Rich Harvest Farms í Chicago, Stonehill vellinum í Bangkok í Taílandi og á Royal Greens vellinum í Jeddah í Sádí-Arabíu. Lokamótið fer þá fram á Trump National Doral vellinum á Miami í Flórída.

Trump National Doral. Ljósmynd: The Trump Organization/Stephen Szurlej

Eins og sakir standa gilda LIV Golf mótin ekki til stiga á heimslista atvinnukylfinga. LIV Golf hefur sótt um slíkt en umsókninni hefur ekki enn verið svarað. Ákvörðunin verður tekin af átta manna stjórn sem í sitja bæði forsvarsmenn PGA mótaraðarinnar og Evrópumótaraðarinnar ásamt fulltrúum frá bandaríska og breska golfsambandinu, PGA í Bandaríkjunum, sambandi PGA mótaraða víða um heim og Augusta National. Stjórnarformaður er Peter Dawson, fyrrverandi forstjóri breska golfsambandsins.

Verðlaunafé á LIV Golf á sér engin fordæmi. Á fyrstu sjö mótunum eru 20 milljónir Bandaríkjadala í boði í einstaklingskeppninni og 5 milljónir í liðakeppninni. Þrír efstu kylfingarnir á stigalista einstaklingskeppninnar að loknum mótunum sjö, skipta með sér 30 milljónum Bandaríkjadala að því gefnu að þeir hafi leikið á a.m.k. fjórum mótum. Á lokamótinu verða 50 milljónir Bandaríkjadala í boði þar sem sigurliðið skiptir með sér 16 milljónum Bandaríkjadala og liðið sem verður í 12. og neðsta sætinu skiptir með sér 1 milljón Bandaríkjadala. Samtals eru því í boði 255 miljónir Bandaríkjadala í verðlaunafé á mótunum átta.

Í einstaklingskeppni hvers móts fær sigurvegarinn 4 milljónir Bandaríkjadala í verðlaunafé. Ekkert risamót hefur veitt sigurvegaranum slíkt verðlaunafé. Sá sem rekur lestina í 48. sæti á hverju LIV Golf móti hlýtur 120 þúsund Bandaríkjadali í sinn hlut. Enginn fer tómhentur heim þar sem engin niðurskurður er á LIV Golf mótunum líkt og tíðkast hefur almennt á atvinnumannamótum.

LIV Golf mótaröðin er kostuð af LIV Golf fjárfestingasjóðnum. LIV Golf fjárfestingarsjóðurinn er aftur í eigu Fjárfestingarsjóðs Sádí-Arabíu (PIF). Mohammed bin Salman, krónprins Sádí-Arabíu stýrir PIF og stýrir ríkinu sjálfu í nafni föður síns, Bin Salman, konungi af Sádí-Arabíu. Orðspor bin Salman er ekki flekklaust en krónprinsinn hefur m.a. verið sakaður um að hafa skipað fyrir um morðið á Jamal Khashoggi, blaðamanni sem ekki var hliðhollur stjórnvöldum í landinu. Þá eru mannréttindi ekki sjálfsögð í ríkinu, samkynhneigð er dauðasynd og kvenréttindi, eins og við þekkjum þau í hinum vestræna heimi, ekki til staðar. Greg Norman vill horfa á fjárfestinguna frá Sádí-Arabíu öðrum augum.

Hvers vegna vilja stjórnvöld í Sádí-Arabíu kosta golfmótaröð með hætti sem á sér engin fjárhagsleg fordæmi? Þó auður Sádí-Arabíu í gegnum olíusjóðina sé nær endalaus í dag er olían það ekki og möguleg orkuskipti framundan. Yfirlýst markmið PIF og annarra álíka fjárfestingarsjóða er því að dreifa tekjustreymi ríkjanna víðar og í leiðinni að koma upp betri tengingum í fleiri geira viðskiptalífsins. Flestir telja þó aðalástæðuna vera þá að ríkið sé að kaupa sér betri ímynd í gegnum markaðstengdar íþróttir, e. sportswashing.

Aðstandendur LIV Golf sáu sér leik á borði og nýttu sér það umhverfi sem atvinnukylfingar hafa búið við. Atvinnukylfingar hafa ekki verið samningsbundnir við ákveðnar mótaraðir, deildir eða lið eins og í mörgum öðrum markaðstengdum íþróttum. LIV Golf hefur boðið kylfingum leikmannasamninga og ríkulega undirskriftarbónusa.

Talið er að Phil Mickelson hafi skrifað undir samning við LIV Golf til tveggja ára að verðmæti 200 milljóna Bandaríkjadala. Mickelson hefur á 30 ára ferli á PGA mótaröðinni unnið sér inn um 95 milljónir Bandaríkjadala í verðlaunafé. Dustin Johnson er talinn hafa skrifað undir samning til fjögurra ára að verðmæti 150 milljóna Bandaríkjadala en hann hefur unnið sér inn tæplega 75 milljónir Bandaríkjadala á PGA mótaröðinni frá árinu 2008. Brooks Koepka er talinn hafa skrifað undir samning að svipuðu verðmæti og landi sinn Johnson en Koepka hefur unnið sér inn tæpar 35 milljónir Bandaríkjadala á PGA mótaröðinni síðan árið 2014. Þá er Bryson DeChambeau talinn hafa skrifað undir samning við LIV Golf að verðmæti yfir 100 milljónir Bandaríkjadala en hann hefur á ferli sínum á PGA mótaröðinni unnið sér inn um 26 milljónir Bandaríkjadala í verðlaunafé.

Sögusagnir eru uppi um að Patrick Cantlay (7), Viktor Hovland (8), Hideki Matsuyama (14), Adam Scott (40), Tommy Fleetwood (43), Bubba Watson (72), Rickie Fowler (152) og gamla kempan Henrik Stenson (156) muni semja við LIV Golf innan tíðar. Forsvarsmenn LIV Golf hafa látið hafa það eftir sér að 170 umsóknir hafi borist þeim fyrir fyrsta mótið í London.

Rory McIlroy (3) hefur lýst mikilli andúð á LIV Golf, forsvarsmönnum LIV Golf og kylfingum sem samið hafa við LIV Golf. Efsti kylfingurinn á heimslistanum, Scottie Scheffler, hefur lýst yfir tryggð við PGA mótaröðina, sem og Jon Rahm (2), Collin Morikawa (4), Justin Thomas (5), Matt Fitzpatrick (10), Xander Schauffele (11) og Harold Varner III (37). Þá er goðsögnin Tiger Woods sagður hafa hafnað samningi við LIV Golf upp á fleiri hundruð milljónir Bandaríkjadala og önnur goðsögn, Jack Nicklaus hefur hafnað samningi upp á um 100 milljónir Bandaríkjadala. Pierceson Coody, sem talin er með efnilegri kylfingum heims í dag og hefur nýhafið atvinnumannaferil sinn a Korn Ferry mótaröð PGA og unnið sinn fyrsta sigur, hefur að sögn hafnað stórum samningi við LIV Golf. Coody sagðist ekki geta horfst í augu við sjálfan sig ef hann útilokaði sig frá mótaröðinni sem honum hefur alltaf dreymt um að leika á.

PGA mótaröðin hefur gripið til varna. Á sama degi og fyrstu menn tíuðu upp á fyrsta hring í London sendi PGA mótaröðin minnisblað til meðlima mótaraðarinnar þess efnis að þeir kylfingar sem hafa ekki fengið lausn frá skyldum sínum á PGA mótaröðinni og taka þátt í mótum á vegum LIV Golf sæti banni um óákveðinn tíma frá mótum á vegum PGA mótaraðarinnar. Þá bannar PGA kylfingana einnig á Korn Ferry mótaröðinni, Champions mótaröðinni og á mótaröðum PGA í Canada og latnesku Ameríku sem og í Forsetabikarnum milli liðs Bandaríkjanna og alþjóðaliðsins enda er um að ræða viðburði á vegum PGA mótaraðarinnar. Evrópumótaröðin hefur lagt sektir á þá kylfinga sem léku á LIV Golf í London og bannað þá frá keppni á þremur mótum. Búist er við frekari viðurlögum í byrjun júlí að hálfu Evrópumótaraðarinnar á hendur kylfingum sem taka þátt í LIV Golf í Portland.

PGA mótaröðin hefur einnig tilkynnt um breytingar á mótafyrirkomulagi, verðlaunafé og bónusgreiðslum. Frá og með næsta keppnistímabili PGA mótaraðarinnar verða átta minni mót með verðlaunafé upp á a.m.k. 20 milljónir Bandaríkjadala hvert um sig fyrir þá 50 efstu á stigalista síðasta árs. Enginn niðurskurður verður í þeim mótum. Hljómar þetta kunnuglega? Þá verður verðlaunafé aukið umtalsvert í völdum mótum, upp í 20 milljónir Bandaríkjadala í sex mótum og upp í 25 milljónir Bandaríkjadala á sjálfu Players meistaramótinu. Að auki verður bónuspottur fyrir þá 10 efstu í lok keppnistímabilsins upp á samtals 20 milljónir Bandaríkjadala áður en þeir keppa um FedEx Bikarinn og það verðlaunafé sem honum fylgir. Þá hlýtur sá kylfingur, sem talinn er hafa mest áhrif á samfélagsmiðlum, bónus upp á 10 milljónir Bandaríkjadala. Að síðustu verður þeim kylfingum sem taka þátt í 15 eða fleiri mótum veittur bónus upp á 50 þúsund Bandaríkjadali.

Margir furða sig á því hvaðan þessi innspýting fjármagns kemur en talið er að fjármagnið komi að mestu úr sjónvarpsréttarsamningi síðan í byrjun ársins 2020 sem er talin nema um 7 milljörðum Bandaríkjadala. Forsvarsmenn PGA mótaraðarinnar hafa látið hafa það eftir sér að mótaröðin fagni heilbrigðri samkeppni. Þeir segja þó að samkeppnin sem LIV Golf bjóði upp á sé allt annað en heilbrigð og að bandarísk stofnun á borð við PGA mótaröðina eigi engan möguleika á að keppa fjárhagslega við erlent einræðisríki með ótakmörkuð fjárráð sem hefur það að markmiði að kaupa golfíþróttina. Forsvarsmenn PGA mótaraðarinnar segja hana liggja undir árás en segja stofnunina þó sterka og samtakamáttinn innan hennar mikinn.

Hluti bandarísku kylfinganna á LIV Golf hafa kosið að segja sig frá PGA mótaröðinni og eru þeir því ekki gjaldgengir í Ryder bikarlið Bandaríkjanna. Ekki er ljóst hvað verður um möguleika þeirra evrópsku kylfinga, sem kosið hafa að semja við LIV Golf, til að leika fyrir Ryder bikarlið Evrópu. Líklegt verður að teljast að þeir kylfingar sem kosið hafa að leika á LIV Golf hafi a.m.k. skaðað framtíðarmöguleika sína sem fyrirliðar Ryder bikarliðanna. Ekkert bann hefur verið lagt á kylfinganna á LIV Golf að hálfu risamótanna fjögurra eins og er.

LIV Golf hefur heitið að greiða sektir sem Evrópumótaröðin hefur lagt á kylfingana og mögulegar sektir í framtíðinni. Búist er við málaferlum í tengslum við deilur, sérstaklega milli PGA mótaraðarinnar og þeirra kylfinga sem settir hafa verið í bann frá viðburðum á vegum hennar.

LIV Golf mótin virðast ætla að verða sterkari með hverju mótinu sem líður. Á fyrsta mótinu í London var Dustin Johnson hæst skrifaði keppandinn á heimslista atvinnukylfinga. Johnson situr í dag í 17. sæti listans. Á mótinu í London voru fjórir kylfingar á meðal þeirra 40 efstu á heimslistanum. Dustin Johnson (17), Louis Oosthuizen (21), Kevin Na (33) og Talor Gooch (38). Á öðru mótinu sem hófst í Portland í kvöld er Dustin Johnson enn hæst skrifaði keppandinn en fjórir keppendur, sem eru á topp 40 á heimslista atvinnukylfinga hafa bæst við. Það eru þeir Brooks Koepka (19), Abraham Ancer (22), Bryson DeChambeau (31) og Patrick Reed (39).

Fjöldi kylfinga á LIV Golf, sem eru á topp 30 á heimslistanum, hefur einnig tvöfaldast úr tveimur í fjóra og sömu sögu má segja um fjöldann á topp 20 sem hefur farið úr einum í tvo. Ef borin er saman meðal sætistala kylfinga á LIV Golf á heimslistanum má sjá að í fyrsta mótinu í London var hún um 344 en á öðru mótinu í Portland um 255. Níu kylfingar sem tóku þátt í London þurftu frá að hverfa en þeir voru að meðaltali í sæti 738. Í stað þeirra koma aðrir níu sem eru að meðaltali í sæti 262. Í London tóku 16 kylfingar þátt sem eru meðal 100 efstu á heimslistanum en í Portland eru þeir 21 talsins. Í London tóku 18 kylfingar þátt sem voru í sæti 200 eða neðar á heimslista en í Portland verða þeir 13 talsins. Mótið í Portland er sterkara á pappírunum en bæði John Deere Classic á PGA mótaröðinni og Opna írska mótið á Evrópumótaröðinni sem fram fara í þessari viku.

LIV Golf ætlar sér að höfða til áhorfenda sem geta gengið um völlinn og horft frá fleiri svæðum en áður hefur þekkst. Boðið verður upp á ´Fan Zone´ sem hannað verður í anda hverrar gestgjafaborgar. Gestum verður boðið upp á að slá í hermum undir handleiðslu fagmanna og leika eftir þekkt pútt á flötum hinna ýmsu goðsagnakenndra valla. Áhugamenn um tölvuleiki geta heimsótt Metaverse-tjaldið þar sem sýndarveruleiki og rafíþróttir ráða ríkjum. Sérstakt svæði verður lagt undir leiki og skemmtun fyrir börn og boðið verður upp á lifandi tónlist á hverju kvöldi.

LIV Golf mun gera tilraun til byltingar í golfútsendingum með yfir 50 myndavélum víðsvegar um völlinn, hátt í tuttugu myndavélaturnum, drónum og 60 hljóðnemum frá teig að flöt á hverri einustu holu ásamt hljóðnemum á bæði kylfingum og kylfusveinum. Fyrstu mótin eru sýnd á hinum ýmsu streymisveitum, m.a. á Viaplay.

Nú þegar hafa 8 af efstu 40 kylfingunum á heimslista atvinnukylfinga samið við LIV Golf og þannig hvatt PGA mótaröðina um óákveðinn tíma. Nú þegar eru handhafar 9 af síðustu 21 risamótstitli samningsbundnir LIV Golf.

Kylfingarnir sem hafa skuldbundið sig við hina nýju mótaröð gefa mismunandi skýringar fyrir ákvörðun sinni. Það er ljóst að þeir sem hafa kosið nýja braut geta leyft sér að leika á færri mótum í fleiri menningarheimum fyrir meiri tekjur. Í staðinn afsala þeir sér möguleikanum á að feta í fótspor Tiger Woods, Jack Nicklaus, Arnold Palmer og fleiri goðsagna á PGA mótaröðinni í gegnum tíðina.

Golfheimurinn er sundraður og sitt sýnist hverjum en hvort LIV Golf invitational mótaröðin verði til þess að gæða íþróttina nýju lífi eða kljúfa hana í herðar niður verður tíminn að leiða í ljós.

Charl Schwartzel, sem sigraði á LIV Golf London, ásamt Greg Norman, forstjóra LIV Golf. Ljósmynd: thesportstak.com