Fréttir

Æsispennandi lokahringur hjá Guðrúnu Brá
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 18. desember 2025 kl. 22:12

Æsispennandi lokahringur hjá Guðrúnu Brá

Guðrún Brá Björgvinsdóttir á fyrir höndum einn mikilvægasta hring ferilsins þegar hún stígur á upphafsteig á lokahring á lokaúrtökumóti fyrir LET Evrópumótaröðina á Al Maaden Golf Marrakech og Royal golf Marrakech golfvöllunum í Marakkó. Hún er í 15.-20. sæti og þarf a halda sér þar til að tryggja sér þátttökurétt á LET Evrópumótaröð kvenna á næsta ári.

Guðrún lék þriðja hringinn mjög vel, á tveimur undir pari. Hún byrjaði illa og fékk tvo skolla á fyrstu sjö holunum en lét það ekki á sig fá og lék frábært golf næstu ellefu holur sem hún lék á fjórum undir pari.

Guðrún er á -7 og það ser ljóst að spennan verður gríðarleg í lokahringnum og hvert högg mikilvægt. Hún hefur leikið stöðugt golf í mótinu og geri hún það áfram eru góðar líkur á að hún tryggi sér þátttökurétt á sterkustu mótaröðinn í Evrópu á næsta ári.

Hinar íslensku stelpurnar eru nokkru neðar en Ragnhildur Kristinsdóttir er á einu höggi undir pari og á enn möguleika á að komast í topp 20 en þarf þá að eiga magnaðan hring. Hún er jöfn í 68. sæti.

Andrea Bergsdóttir er á +3 og er í 107. sæti.

Hulda Clara Gestsdóttir er í 149. sæti á 11 höggum yfir pari og hefur ekki náð sér á strik í mótinu.