Fréttir

Ánægður með spilamennskuna - segir Sigurður Arnar
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 17. apríl 2024 kl. 16:59

Ánægður með spilamennskuna - segir Sigurður Arnar

„Þetta var hörku törn og ég er bara ánægður með árangurinn og mitt golf í þessum mótum,“ segir Sigurður Arnar Garðarsson úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, GKG, í spjalli við kylfing.is skömmu eftir þriðja mótið í röð á Ecco mótaröðinni í Póllandi.

Sigurður endaði í 32. og 34. sæti í fyrstu tveimur mótunum á Sand Valley en barðist svo um sigurinn á því þriðja. Hann segist afar sáttur með árangurinn. „Þetta var hörð keppni. Keppendur voru 156 í mótunum og bara 45 komust í gegnum niðurskurðinn svo það var markmiðið mitt fyrir hvert mót. Það tókst og svo gekk þetta best í þriðja mótinu. Það hefði auðvitað verið gaman að vinna en ég var alla vega nálægt því.“

Sjö Íslendingar gistu í húsi rétt við golfvöllinn og tóku allir nema einn þátt í mótunum þremur. Sex af sjö eru úr GKG.

Leiknar eru 54 holur í hverju móti með niðurskurði eftir 36 holur og því níu hringir á sama vellinum fyrir þá sem komast áfram í öllum mótunum. „Þetta er bara fínasti völlur. Þeir gerðu hann aðeins erfiðari m.a. með því að breyta pari á tveimur brautum,“ sagði Sigurður Arnar.

Sigurður kemur heim eftir þessa törn en freistar þess að taka þátt í móti sem verður í maí en hann ætlar síðan að keppa stíftá Ecco mótaröðinni í sumar .

En er eitthvað sem þú tekur úr þessum mótum golflega séð?

„Ef það er eitthvað, þá getur maður alltaf bætt sig í stutta spilinu. Ég hef nánast eingöngu æft í hermi síðasta hálfa árið og þá vilja púttin verða aðeins útundan. Það er ekki það sama að pútta inni og úti á golfvelli. Ég fann það í fyrsta mótinu í Póllandi en fór síðan og tók góða púttæfingu og fann mig betur í þeim þætti eftir það. Ég er annars bara spenntur fyrir sumrinu. Markmiðið mitt er að komast á sterkustu mótaröðina í Evrópu.“