Andlát: Ásgerður Sverrisdóttir
Ásgerður Sverrisdóttir læknir lést á krabbameinsdeild Landspítalans sunnudaginn 13. júlí sl. 63 ára að aldri. Hún stundaði golf frá því hún var lítil stelpa, tók fyrstu höggin á Nesvellinum og alla tíð eftir það með mjög góðum árangri. Ásgerður varð Íslandsmeistari kvenna tvívegis, 1983 og 1984.
Ásgerður fæddist í Reykjavík 1. mars 1962. Foreldrar hennar voru hjónin Sverrir Erlendsson skipstjóri og Dóra Bergþórsdóttir húsmóðir.
Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1981 og námi í læknisfræði við Háskóla Íslands árið 1989. Hún fékk almennt lækningaleyfi á Íslandi árið 1992 og í Svíþjóð árið 1994 og fékk sérfræðingsleyfi í krabbameinslækningum í Svíþjóð 1998. Hún var við framhaldsnám og störf í krabbameinslækningum á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi 1989-2005 og lauk doktorsprófi frá Karolinska Institutet í Stokkhólmi árið 2012. Frá árinu 2005 starfaði hún sem krabbameinslæknir á Landspítala.
Ásgerður sat í stjórn Félags íslenskra lækna í Svíþjóð frá 1992 til 1994. Þá sat hún í stjórn Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins, frá árinu 2020 til dánardags, og var meðal annars varaformaður stjórnar sjóðsins. Hún var einnig varaformaður Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins frá 2014 til 2024 og var það ár kjörin heiðursfélagi í Krabbameinsfélagi höfuðborgarsvæðisins.
Auk tveggja Íslandsmeistaratitla kvenna varð Ásgerður einnig Íslandsmeistari í flokkum 35 ára og eldri og 50 ára og eldri og stigameistari í öldungaflokki. Þá vann hún marga titla innan Golfklúbbs Reykjavíkur og var lengi í íslenska kvennalandsliðinu í golfi.
Eftirlifandi eiginmaður Ásgerðar er Steinn Auðunn Jónsson læknir. Synir þeirra eru Sverrir og Axel en stjúpsonur Ásgerðar og sonur Steins er Hákon.
Páll Ketilsson, ritstjóri kylfings.is tók viðtal við Ásgerði þegar þau voru saman í golfhópi í Grikklandi síðla árs 2023.