Fréttir

Andri Þór með besta hring dagsins og leiðir í karlaflokki
Andri Þór púttar hér á öðrum keppnisdegi.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 9. ágúst 2019 kl. 19:54

Andri Þór með besta hring dagsins og leiðir í karlaflokki

Andri Þór Björnsson er í forystu eftir tvo hringi á Íslandsmótinu í höggleik sem fer fram á Grafarholtsvelli hjá Golfklúbbi Reykjavíkur. Andri lék annan hringinn á 5 höggum undir pari og er með tveggja högga forystu þegar mótið er hálfnað.

Eftir fyrsta hring mótsins voru þeir Hlynur Geir Hjartarson og Andri Már Óskarsson í forystu í karlaflokki á tveimur höggum undir pari. Hlynur lék aftur á tveimur höggum undir pari og er í öðru sæti en Andri lék á höggi yfir pari og er dottinn niður í 8. sæti.

Á sama tíma lék Andri Þór óaðfinnanlegt golf á öðrum keppnisdegi, fékk fimm fugla og tapaði ekki höggi og kom inn á 66 höggum. Andri kom sér sjaldan í mikil vandræði á hringnum og hefði jafnvel getað bætt við sig fleiri fuglum.

Eins og fyrr hefur komið fram er Hlynur Geir í öðru sæti en hann er á fjórum höggum undir pari. Selfyssingurinn er í leit að sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í höggleik en hann varð Íslandsmeistari í holukeppni árið 2008 auk þess að verða stigameistari árin 2010 og 2012. 

Fjórir GR-ingar deila þriðja sætinu á 3 höggum undir pari en það eru þeir Haraldur Franklín Magnús, Viktor Ingi Einarsson, Hákon Örn Magnússon og Jóhannes Guðmundsson.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson er í 7. sæti á tveimur höggum undir pari en hann lék annan hringinn á 3 höggum undir pari þrátt fyrir tvöfaldan skolla á 14. holu.

Axel Bóasson, sem hefur titil að verja, lék annan hringinn á höggi undir pari og er jafn í 16. sæti þegar mótið er hálfnað.

Þegar fréttin er skrifuð eru síðustu kylfingar í karlaflokki að klára annan hringinn. Búast má við því að 11 högg yfir pari dugi til þess að komast áfram.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Staða efstu kylfinga mótsins:


Rúnar Arnórsson slær hér innáhögg á öðrum keppnisdegi.